Ás­geir Jóns­son seðla­banka­stjóri gaf lítið fyrir um­mæli aðal­hag­fræðings Ís­lands­banka, Jóns Bjarka Bents­sonar, um að ákvörðun Seðla­bankans að lækka vexti í morgun væri til marks um stefnu­breytingu hjá peninga­stefnu­nefndinni.

Seðla­banka­stjóri sagðist ekki geta séð hvernig hægt sé að túlka vaxtaákvörðunina sem stefnu­breytingu og velti fyrir sér hvort Jón Bjarki þurfi því kannski ný gler­augu.

Jón Bjarki Bents­son aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka sagði á fundinum að hann hafi aldrei séð jafn mikið mis­ræmi milli ákvörðunar og framsýnnar leið­sagnar eins og í yfir­lýsingu peninga­stefnu­nefndar sem var birt í morgun.

„Ég hef áhyggjur af því að þetta auki óvissu og minnki skilning markaðarins á því hvað þið eruð að gera og hvert þið stefnið.

Það var sagt á vaxtaákvörðunar­fundi í mars að ykkur lægi ekkert á að minnka peninga­legt aðhald. Í yfir­lýsingunni núna er tekið fram að það sé ekki rými fyrir minna aðhald. Samt er aðhaldið minnkað á nánast alla kvarða nema ef við miðum við verðbólgu­væntingar markaðsaðila,“ sagði Jón Bjarki og spurði hvernig nefndin skýri þessa stefnu­breytingu á ekki lengri tíma.

Hann spurði hvort það hefði ekki verið heppi­legra ef nefndin hefði beðið með vaxtalækkun fremur en að lækka vexti en slá á sama tíma harðan tón í yfir­lýsingu sinni.

Jón Bjarki, sem hafði spáð óbreyttum vöxtum í að­draganda vaxtaákvörðunarinnar, velti þannig fyrir sér hvort óbreyttir vextir hefðu ekki verið skyn­sam­legir í ljósi mikillar óvissu vegna tollamála og horfa í ferðaþjónustunni, sem gæti að hans sögn minnkað veru­lega í sumar.

„Hefði hug­san­lega verið skyn­sam­legra að gefa því undir fótinn að slaki á peninga­legu aðhaldi gæti komið til á seinni hluta ársins heldur en að fara í það sem virðist núna vera botninn á því sem þið teljið í vaxta­aðhaldinu og í rauninni þurfa þá að breyta um kúrs, a.m.k. hvað varðar þessa yfir­lýsingu um að lækka ekki vexti fyrr en verðbólga lækkar, ef það kemur á daginn að efna­hags­horfurnar eru að versna í sumar, verðbólgu­væntingar á aðra mæli­kvarða en markaðsaðila eru að lækka, verðbólguálag á markaði að lækka sem það hefur eigin­lega ekkert gert‏.

Eruð þið ekki búin að binda ykkur fasta í mjög af­dráttar­lausa stefnu sem hug­san­lega þarf að kvika frá mjög fljót­lega?“

Fyrir­lestur fremur en spurning

Ás­geir þakkaði Jóni Bjarka fyrir en bætti við að þetta hafi fremur verið fyrir­lestur heldur en spurning.

„Jón Bjarki, ég held að þú þurfir kannski ný gler­augu vegna þess að ég fæ ekki séð með nokkrum hætti hvernig þú telur þessa 25 punkta lækkun vera breytingu á stefnu, né heldur að aðhalds­stigið sé að minnka,“ svaraði Ás­geir.

„Ég bara bíð var á því að túlka þessa 25 punkta sem stefnu­breytingu eða eitt­hvað álíka. Það ætti frekar að líta á hana sem rökrétt fram­hald af síðustu fjórum vaxtalækkunum. Það hefur ekkert gerst, ekki neitt gerst – það hefur þá farið fram hjá mér, mögu­lega les ég ekki öll blöð – [sem hafi breytt ein­hverju] í efna­hags­lífi landsins eða því sem hefur verið að gerast.“

Ás­geir tók vissu­lega undir að tolla­stríð væri komið upp en bætti við að mjög auðvelt væri að leiða að líkum að það leiði til lækkunar á vöru­verði fremur en hækkunar „sem þó er „grunn­ca­se-ið“ hér“. Það sé alveg hægt að sjá fyrir sér að ef bandaríski markaðurinn lokast að ein­hverju leyti með tollum þá leiti hingað fram­boð annars staðar að, eins og frá Asíu. Þessi þróun geti jafn­vel leitt til sam­dráttar í Kína sem stuðli að lægra hrávöru­verði.

Hann velti fyrir sér hvort Jón Bjarki væri að horfa í of mikið á síðustu verðbólgumælingu, þar sem tólf mánaða mælingin fór úr 3,8% í 4,2%.

Seðla­banka­stjóri vísaði í nýja verðbólgu­spá bankans og benti á að hún geri ráð fyrir að verðbólgan hjaðni niður í ríf­lega 4% á næstunni.

„Þannig að þessi 25 punkta lækkun er ekki að breyta aðhalds­stiginu með nokkrum hætti,“ sagði Ás­geir.

Hann sagði einnig að ákveðnir aðilar hefðu skrifað rit­gerðir um það að það sé ein­hver munur á því að vera með ganga­drifna stefnu, líkt Seðla­bankinn hefur talað um við vaxtaákvarðanir á síðustu misserum, annars vegar og hins vegar framsýna stefnu.

„Það er ein­hver mis­skilningur vegna þess að auðvitað erum við bæði að vinna með gagna­drifna og framsýna stefnu.“

Þórarinn G. Péturs­son, vara­seðla­banka­stjóri peninga­stefnu, sagði að sér þættu skila­boð Seðla­bankans skýr.

„Við erum bara komin á þann stað að við förum ekki lengra með vextina fyrr en við fáum verðbólguna mikið meira niður. Hún verður að fara meira niður áður en við höldum áfram í þessu. Mér finnst þetta mjög skýr skila­boð. Ég sé ekki að þetta valdi ein­hverri óvissu heldur þvert á móti er þetta mjög skýrt. En auðvitað er óvissa um hvernig þetta fer.“

Hildur Margrét Jóhanns­dóttir, hag­fræðingur Lands­bankans, tók síðar á fundinum undir túlkun Jóns Bjarka. „Ef hann vantar ný gler­augu þá ætti ég kannski að fara með honum í gler­augna­búðina.“

„Mér fannst erfitt að finna í yfir­lýsingunni skýran rökstuðning fyrir því að lækka vexti núna. Svo sér maður að verðbólgu­spáin ykkar hækkar, það er batnandi fjár­hags­staða heimila, horfur á meiri einka­neyslu en haldið var áður, korta­veltutölurnar í apríl komu mjög á óvart upp á við og utan­lands­ferðir Ís­lendinga líka,“ sagði Hildur Margrét.

Hún spurði Ás­geir og Þórarin hvort þeim fyndist vond til­hugsun að stoppa vaxtalækkunar­ferlið og hvort það sé þáttur í að halda fyrir­sjáan­leika.

„Því það er ein­hvern veginn næstum því það eina sem mér datt í hug sem rök fyrir því að lækka [vexti] miðað við hagtölurnar.“

Nálgast má „fyrirlestur“ Jóns Bjarka og svar Ásgeirs frá 34:20-45:00.