Alþjóðlega tæknifyrirtækið IBM fetar í fótspor Reykjavíkurborgar með því að taka upp ráðningabann.

IBM hyggst þó leysa starfsmannamálin með öðrum hætti en borgin því ráðgert er að gervigreind leysi um 7.800 stöðugildi innan félagsins af hólmi á næstu árum.

Forstjóri félagsins, Arvind Krishna, staðfestir þetta í samtali við Bloomberg. Fallið verður frá, eða a.m.k. hægt á, ráðningum á skrifstofum félagsins í deildum á borð við mannauðsdeild að sögn forstjórans.

Hann reiknar með að um 30% starfa innan raða félagsins sem fela ekki í sér samskipti við viðskiptavini muni verða leyst af hólmi af gervigreind á næstu fimm árum.