Fyrirtæki í Bandaríkjunum greindu frá 769.953 ráðningum á síðasta ári en ráðningar þar í landi hafa ekki verið lægri síðan 2015. Þá fækkaði einnig ráðningum frá 11.621 í nóvember niður í 7.999 í desember.

Ráðningum hafði þá fækkað um 1,3% samanborið við 2023 og hækkaði atvinnuleysi einnig úr 3,7% í byrjun árs í 4,2% í nóvember.

Þá segir að fyrirhugaðar uppsagnir hafi numið 761.358 á síðasta ári og hafa þær ekki verið fleiri síðan árið 2020 þegar heimsfaraldur skall á. Fyrir utan COVID höfðu uppsagnir ekki verið fleiri síðan árið 2009.

„Minnkandi tíðni ráðninga endurspeglar áframhaldandi óvissu í hagkerfinu og varkárari nálgun vinnuveitenda. Flestir vinnuveitendur búast einnig við aukinni óvissu með komandi stjórn og gæti það líka leitt til færri ráðninga,“ segir Andrew Challenger, aðstoðarforstjóri Challenger, Gray & Christmas.

Flestar stöðufækkanir voru þá í tæknigeiranum en þar á eftir komu heilbrigðisgeirinn, bílaiðnaðurinn og þjónustustörf. Markaðs- og efnahagsástæður, hagræðing og endurskipulagning voru sagðar vera helstu ástæður fyrir þróuninni.