Þegar Ísland innleiddi afleidda reglugerð um tæknileg matsviðmið flokkunarkerfis, í tengslum við EU-Taxonomy flokkunarreglugerðina frá ESB, var fjármálaráðuneytið fullmeðvitað um að stór hluti reglugerðarinnar ætti ekki við hér á landi og myndi leiða til þess að íslensk fyrirtæki gætu ekki sinnt samsvarandi upplýsingagjöf og fyrirtæki í Evrópu.
Aðeins fjórar umsagnir bárust fjármálaráðuneytinu þegar reglugerð um flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar var birt í samráðsgátt.
Í þremur þeirra, sem Brimborg, Deloitte og Landsvirkjun skrifuðu, var ráðuneytinu bent á að í reglugerðinni og undirgerðum hennar væri vísað til viðmiða sem fram koma í Evrópusambandsgerðum sem ekki hafa verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar hér á landi.
Í umsögn Deloitte sem Gunnar Sveinn Magnússon, meðeigandi og yfirmaður sjálfbærniráðgjafar, skrifaði segir að aðilar muni „ítrekað reka sig á horn þar sem evrópskar tilskipanir eða reglugerðir hafa ekki verið innleiddar hér á landi með fullnægjandi hætti, með þeirri afleiðingu að Taxonomy-upplýsingagjöf verður gloppóttari en ella.”
Gunnar nefnir fjölmörg dæmi um tilskipanir sem Ísland hefur ekki innleitt, ranglega innleitt eða ekki sinnt með fullnægjandi hætti sem munu hafa áhrif.
„Að mati Deloitte skýtur það skökku við að hið opinbera leggi slíkar kröfur á fyrirtæki, án þess að hafa staðið skil á sínu áður en til þess kemur. Að sama skapi er ljóst að vanda verður betur til verka við frekari innleiðingu á sjálfbærniregluverki ESB, sem er í mótun sem stendur og væntanlegt á næstu misserum,” skrifar Gunnar en von er á að Alþingi innleiði tilskipun ESB um sjálfbærniupplýsingar fyrirtækja (CSRD) í haust, sem gæti haft afleidd áhrif á minni fyrirtæki.
Að öllum líkindum mun Ísland einnig innleiða CSDDD (Corporate Sustainability Due Diligence Directive) bráðlega en markmið CSDDD er að stuðla að því að fyrirtæki taki tillit til umhverfis- og mannréttindasjónarmiða.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.