Ríkissjóður hefur keypt 5.900 fermetra skrifstofuhúsnæði af Landsbanka Íslands fyrir 6 milljarða króna. Tilkynnt var um þetta í dag en utanríkisráðuneytið mun flytjast í húsnæðið.
Viðskiptablaðið hefur skoðað viðskipti með skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem byggð eru á þinglýsingargögnum og kaupum skráðra félaga sem tilkynnt hefur verið um til kauphallar.
Samkvæmt því verður skrifstofuhúsnæði utanríkisráðuneytisins og Landsbanka, að því gefnu að sá hluti húsnæðisins sé af sömu gæðum, dýrasta skrifstofuhúsnæði á Íslandi.
Hver fermetri í utanríkisráðuneytinu kostar 1.016.949 en tilkynnt var um verð og fjölda fermetra á vef stjórnarráðsins.
Næst dýrasta skrifstofuhúsnæðið er Höfðatorg sem Reginn keypti árið 2018. Fermetraverðið á því var 627.341 á verðlagi dagsins í dag.
Utanríkisráðuneytið verður því í húsnæði sem er 62% dýrara en Höfðatorg, sem talið er af mörgum glæsilegasta skrifstofuhús á Íslandi.