Fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið hafnar því að eig­endur íbúða­bréfa hafi verið snuðaðir við af­hendingu ríkis­bréfa og reiðu­fjár við upp­gjör ríkisins á ÍL-sjóði.

Eig­endur HFF-skulda­bréfa ÍL-sjóðs samþykktu í byrjun apríl til­lögur ríkisins um upp­gjör á bréfunum í samræmi við til­lögur sem viðræðu­nefnd fjár­málaráðherra og ráðgjafar 18 líf­eyris­sjóða mótuðu.

Líkt og Við­skipta­blaðiðgreindi frá í gærkvöldi sagði Óttar Guðjóns­son, fyrrum eig­andi HFF-bréfa, að bréfin hafi ekki verið af­hent á sömu ávöxtunar­kröfu og eig­endum hafði verið lofað.

Ráðu­neytið svaraði þeirri gagn­rýni í morgun og segir að mis­munur á nafn­verði HFF-bréfanna og því sem kröfu­hafar fengu í hendur stafi ein­göngu af verðbreytingum á eignum sjóðsins á því tíma­bili sem leið frá virðis­mati þann 7. mars 2025 og þar til greiðslur fóru fram 12. júní.

Upp­gjörið fór fram í samræmi við skilmála sem samþykktir voru af skulda­bréfa­eig­endum í apríl, þar sem kveðið var á um að miða skyldi við virðis­mat eigna­safns sjóðsins þann 7. mars 2025. Það mat tók m.a. mið af markaðs­gengi ríkis­skulda­bréfa og reiðufé í sjóðnum.

Kröfu­hafar fengu síðan hlut­falls­lega út­hlutun í reiðufé og ríkis­skuldabréfum, miðað við þessa stöðu eigna­safnsins.

Engin sér­stök skerðing fór fram og upp­gjörið var jafnt fyrir alla, að því er fram kemur í skýrslu ráðu­neytisins.

Mis­munurinn sem margir hafa kvartað undan felst í því að markaðsvirði sumra ríkis­skulda­bréfa hafði lækkað frá mars til júní.

Þá lækkaði einnig gengi evrunnar gagn­vart krónu, sem hafði áhrif á verð­gildi evru­eigna. Meðal annars:

HFF34-bréf: Verðmæti upp­gjörs­eigna lækkaði úr 174,4 ma.kr. í 167,3 ma.kr. á tíma­bilinu.

Þegar tekið er til­lit til greiðslna á tíma­bilinu reyndist raun­virði af­hentra eigna 178,3 ma.kr.

HFF44-bréf: Verðmæti eigna hækkaði ör­lítið, úr 476,9 ma.kr. í 484 ma.kr.

Þetta gerðist m.a. vegna hækkunar ávöxtunar­kröfu margra undir­liggjandi eigna og lækkunar evrunnar.

Ráðu­neytið segir því að „allir kröfu­hafar hafi borið jafna áhættu af virðis­breytingum á tíma­bilinu“ – og að þessi nálgun hafi tryggt jafn­ræði milli lítilla og stórra eig­enda.

Út­greiðslur mis­jafnar eftir vörslu­aðilum

Í skýrslu ráðu­neytisins kemur einnig fram að mögu­legur munur á raunút­kvittunum til skulda­bréfa­eig­enda megi rekja til þess hvernig mis­munandi vörslu­aðilar (t.d. bankar) út­færðu út­hlutunina.

Aðal­at­riðið sé þó að allir fengu jafnt hlut­fall af þeim eignum sem voru til staðar í mars.

Þó að fjár­hags­legt virði hafi breyst þá hafnar ráðu­neytið því að kerfis­bundin skerðing eða hag­ræðing á kostnað skulda­bréfa­eig­enda hafi átt sér stað.