Miklar framfarir hafa átt sér stað á sviði ryksugu- og skúringavélmenna síðustu misseri, bæði hvað tæknilega getu og kostnað varðar.

Það á ekki aðeins við um þær gerðir sem við þekkjum orðið flestöll úr auglýsingum og helstu raftækjaverslunum og sjá um að halda heimilum okkar hreinum heldur ekki síður þau sem ryksuga og skúra vinnustaði okkar, verslanir og önnur rými sem við notum í leik og starfi.

Miklu munar þó á því sem ætlast er til af slíkum atvinnutækjum samanborið við heimavélmennin, útskýrir Bjarki Þorsteinsson, sölu- og þróunarstjóri AÞ-Þrifa, sem undanfarin ár hafa lagt mikla vinnu í að kynna sér þessi tæki og taka í notkun starfsfólki, viðskiptavinum og öðrum haghöfum til góða.

„Það er ekki bara stærð gólfflatarins heldur ekki síður það að flestir sem ganga hann eru í útiskóm eftir að hafa verið úti í öllum veðrum og umgangurinn að jafnaði margfalt meiri en í heimahúsi.“

Munu ekki hafa af fólki störfin

Þegar sjálfvirknivæðing rótgróinna starfa ber á góma er sjaldnast langt í spár um fjöldaatvinnuleysi, aukna misskiptingu og þar fram eftir götunum. Bjarki segir slíkar áhyggjur hins vegar algerlega óþarfar í þessu tilviki.

„Þetta kemur aldrei til með að leysa ræstingastarfsmanninn af. Það sem þetta gerir er að létta honum vinnuna, sérstaklega þá einhæfustu og tímafrekustu, eins og gólfin.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um 25 ára afmælisráðstefnu SVÞ. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.