Fjöldatakmarkanir eru á skattaívilnun hreinna rafbíla, sem mun renna út þegar að 15 þúsund bílar hafa verið skráðir. Skattívilnun þeirra er í dag 1.560.000 krónur, svo fyrsta sex og hálfa milljónin af kaupverðinu ber ekki virðisaukaskatt. Um síðastliðin áramót höfðu verið skráðir ellefu þúsund bílar, og á fyrstu fimm mánuðum ársins hafa bæst við rúmlega 2.500 bílar. Í óbreyttu lagaumhverfi fer því hver að vera síðastur að kaupa rafbíl á afslætti þegar að rétt tæplega 1.500 rafbílar eru eftir af kvótanum.

Skattaívilnanir vegna vistvænna bíla er liður í markmiðum stjórnvalda um að Ísland nái kolefnishlutleysi í samræmi við Parísarsamkomulagið. Vegasamgöngur telja 30% af losun í kolefnisbókhaldi Íslands sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda, þar af eru 65% vegna fólksbifreiða. Sé hins vegar litið til heildarlosunar Íslands og landnotkun tekin með í reikninginn nemur losun frá vegasamgöngum aðeins 6%. Skattaívilnanir frá árinu 2012 hafa numið um 28 milljörðum króna, og skiptist heildarfjárhæðin jafnt á milli tengiltvinn- og hreinorkubíla.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.