Sænska rafhlöðufyrirtækið Northvolt stefnir nú að 3,4 milljarða dala fjármögnun frá Evrópusambandinu og bönkum á borð við JPMorgan Chase til að auka rafhlöðuframleiðslu í Evrópu.

Northvolt ætlar að nota fjármagnið til að auka rafhlöðuframleiðslu í verksmiðju sinni í norðurhluta Svíþjóð fyrir fyrirtæki eins og Volkswagen og BMW. Það segist einnig ætla að stækka endurvinnslustöð sína.

Fjármögnunin er ein sú stærsta sem grænt orkufyrirtæki hefur farið í undanfarin ár en áhersla verður lögð á að framleiða rafhlöður fyrir rafbíla og orkugeymslu þegar það er lítill vindur eða sól.

Kínverjar stjórna stórum hluta af birgðakeðjunni þegar kemur að rafhlöðum, bæði hvað varðar málma og samsetningu. Þetta hefur verið áhyggjuefni fyrir vestræn ríki sem eyða milljörðum dala í skattaafslætti, lán og styrki til fyrirtækja til að koma sínum eigin birgðakeðjum af stað. Bandaríkin hafa farið í svipaðar herferðir með sín fyrirtæki frá því 2022.

Fjárfestingabanki Evrópusambandsins hefur nú lagt nærri einum milljarði til verkefnisins í Svíþjóð. „Mörg lönd hafa viðurkennt að þetta er mikilvægt innviðarverkefni þegar kemur að orkuskiptum,“ segir Peter Carlsson, framkvæmdastjóri Northvolt og fyrrum birgðakeðjustjóri Tesla.

Northvolt var stofnað árið 2016 og vinnur nú að því að stofna nýjar rafhlöðuverksmiðjur í Þýskalandi og Montreal í Kanada. Meðan ESB leggur tæplega milljarð til verkefnisins hafa stjórnvöld í Kanada og Québec sett um 2 milljarða dali.

Carlsson bætir við að 2024 og 2025 verða mikilvæg ár en fyrirtækið er nú að búa sig undir að fara á markað þegar markaðsaðstæður verða meira aðlaðandi.