Íslenska rafíþróttakennslufyrirtækið Esports Coaching Academy (ECA) hefur lokið 750 þúsund dala fjármögnunarlotu eða sem nemur 107 milljónum króna á gengi dagsins. Þetta kemur fram í frétt Esports Insider.

Behold Ventures leiddi fjármögnunarlotuna en meðal stofnenda og meðeiganda vísisjóðsins er Sigurlína Ingvarsdóttir sem starfaði lengi sem stjórnandi við tölvuleikjaframleiðslu. Þá tók íslenski vísisjóðurinn MGMT Ventures og finnski sjóðurinn Sisu Game Ventures einnig þátt í fjármögnuninni.

Esports Coaching Academy, sérhæfir sig í framleiðslu og dreifingu á stuðningsefni fyrir rafíþróttastarf ungmenna. ECA býður upp á þjálfaranámskeið fyrir vinsæla tölvuleiki í rafíþróttum á borð við Valorant og Fortnite.

Í fréttinni er minnst á að fleiri en þúsund krakkar séu í reglulegri rafíþróttaþjálfun hér á landi.