Undirbúningur vegna Blöndulínu 3 hefur staðið yfir í um tvo áratugi og liggur fyrir eldra mat á umhverfisáhrifum sem lauk með áliti Skipulagsstofnunar í janúar 2013. Um er að ræða nýja 220 kV háspennulínu í meginflutningskerfinu á milli Rangárvalla og Blöndu, sem tengir Blöndustöð til Akureyrar.
Í dag fær Akureyrarbær sína orku í gegnum Rangárvallalínu 1 sem rekin er á 132 kV spennu frá Rangárvöllum. Línan er elsti hluti byggðalínunnar og var tekin í gagnið fyrir rúmum fimm áratugum síðan, en eftir að Blöndulína 3 verður tekin í gagnið stendur til að fjarlægja Rangárvallalínu 1.
Ráðgert er að framkvæmdir við Blöndulínu 3 hefjist á árinu og að hún verði loftlína, ef aðalvalkostur Landsnets nær í gegn. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir að bæjaryfirvöld hafi lagt mikla áherslu á að línan fari í gegnum jarðstreng en ekki loftlínu. Það sé mikilvægt fyrir framtíðarskipulag bæjarins.
„Við höfum alltaf lagt áherslu á að línan sé lögð í jörðu og höfum ekki ljáð máls á neinu öðru. Það er á skjön við stefnu stjórnvalda að loftlínur séu í þéttbýli. Blöndulína 3 sem loftlína færi um afar mikilvægt uppbyggingarland á Akureyri og myndi setja okkur þröngan kost við þróun nýrra hverfa í bænum. Það er í rauninni alls ekki boðlegt og því finnst okkur skipta gríðarlega miklu máli að línan fari ofan í jörðina. Við munum í lengstu lög halda þeirri kröfu okkar til streitu,“ segir Ásthildur.
Nánar er fjalla um málið í sérblaðinu Viðskiptaþing - Er framtíðin orkulaus eða orkulausnir. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.