Rafmyntafyrirtækið Circle, sem gefur út „USD coin“ [USDC], eitt vinsælasta „stablecoin” í heiminum, er nýjasta félagið úr þeim ranni til að styrkja innsetningarnefnd Donald Trump, en innsetningarathöfnin fer fram á mánudaginn nk.

USDC er tengt við Bandaríkjadollar, þar sem eitt USDC er ávallt jafnvirði eins dollars. Circle hefur lagt til nefndarinnar USDC að verðmæti einni milljón Bandaríkjadala.

Trump ætlar að stofna til ráðgjafaráðs um rafmyntir [e. crypto advisory counsil] sem mun innihalda á annan tug forstjóra úr rafmyntageiranum. Freista rafmyntaforstjórar þess að komast í ráðið og hafa áhrif á stefnumörkun.

Trump hefur fundað með fjölmörgum rafmyntaforstjórum að undanförnu, t.d. Kris Marszalek, forstjóra Crypto.com, og Brad Garlinghouse og Stu Alderoty hjá Ripple.

Trump hefur einnig fundað með forstjórum rafmyntakauphalla, t.d. Brian Armstrong hjá Coinbase Global Inc., stærstu rafmyntakauphöllinni vestanhafs. Þá hafa rafmyntakauphallirnar Kraken og Ondo styrkt nefnina um eina milljón dala.