Rafmyntakauphöllin Coinbase hyggst segja upp tæplega 1.100 manns eða um fimmtungi af starfsmönnum sínum þar sem samdráttur á rafmyntamarkaðnum mun að öllum líkindum leiða til minni tekna hjá kauphöllinni sem ráðast að stórum hluta af veltu á markaðnum. Financial Timesgreinir frá.

Forstjóri Coinbase, sem er skráð á markað í Bandaríkjunum. sagði í tilkynningu að félagið hefði ráðist í uppsagnirnar til að reyna að tryggja að það standi vel í „þessari efnahagslægð“. Um fjórir fimmtu af tekjum Conbase komu frá viðskiptum almennra fjárfesta, sem hafa dregist verulega saman á síðustu misserum.

Rafmyntakauphöllin tapaði 430 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi. Hlutabréf félagsins hafa fallið um nærri 30% í vikunni og alls 80% frá áramótum.

Sjá einnig: Gylfi segir bitcoin verðlaust

Gengi bitcoin, stærstu rafmyntar heims þegar kemur að markaðsvirði, hefur fallið um tæplega fjórðung á síðastliðinni viku. Verð á Bitcoin hefur lækkað meira en 65% frá því að það náði sínu hæsta gildi í nóvember síðastliðnum. Í gær fór markaðsvirði rafmyntamarkaðarins í heild sinni fór undir þúsund milljarða Bandaríkjadala í fyrsta sinn síðan í janúar 2021.