Suðurkóreski eigandi rafmyntafyrirtækisins Terraform, Do Kwon, hefur verið framseldur til Bandaríkjanna en hann er sakaður um að bera ábyrgð á rafmyntahruni sem kostaði fjárfesta hátt í 40 milljarða dala.
Do Kwon var eigandi Terraform og rak tvær mismunandi rafmyntir, TerraUSD og Luna, sem hrundu báðar árið 2022 og hafði hrunið víðtækari áhrif á rafmyntamarkaðnum. Bandarísk yfirvöld segja að hann hafi skipulagt margra milljarða dala rafmyntasvik.
Kwon flúði frá Suður-Kóreu eftir að handtökuskipun var gefin út og endaði að lokum í Svartfjallalandi þar sem hann verður nú framseldur til Bandaríkjanna eftir langa lagabaráttu.
Hann var meðal annars fundinn sekur um skjalafals af dómstóli í Svartfjallalandi eftir að hafa verið handtekinn þegar hann var að reyna að komast um borð í flugvél til Dubai í mars 2023.