Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, hefur í sinni seinni for­setatíð markað sig sem einn mesti stuðnings­maður raf­mynta­geirans.

Undan­farin misseri hafa við­skipti for­setans og fjöl­skyldu hans með raf­myntir og tengdri starf­semi orðið um­fangs­mikil og margþætt.

Sam­kvæmt The Wall Street Journalhafa við­skiptin einnig verið vafasöm á köflum vegna mögu­legra hags­munaá­rekstra og óskýrrar að­greiningar á milli opin­berra em­bætta og einka­við­skipta.

Á sama tíma hefur markaðsvirðiýmissa raf­mynta tekið kipp í skjóli til­kynninga og um­mæla for­setans ásamt því að frum­kvæði hans í laga­setningu og stefnumörkun hefur verið túlkað sem jákvætt skref fyrir geirann.

$TRUMP-eigendur boðaðir í Hvíta húsið

Trump mun á föstu­daginn halda einka­kvöld­verð fyrir 220 stærstu eig­endur raf­myntarinnar $TRUMP, svo­nefndrar „memecoin“ – myntar sem dregur gildi sitt að veru­legu leyti af net­vinsældum og sam­félags­miðlaumræðu.

Myntin náði tíma­bundnu markaðsvirði upp á 15 milljarða dala, en hefur síðan lækkað veru­lega í verði.

Eftir að kvöld­verðurinn var kynntur tók verðið þó að hækka á ný. Fjölmargir stórir eig­endur myntarinnar eru er­lendir, sem hefur vakið áhyggjur um mögu­leg áhrif við­skipta á stefnumótun stjórn­valda.

Eftir­lit­saðilar hafa einnig bent á að for­setinn gæti verið að hagnast beint á em­bættis­stöðu sinni en for­seta­em­bættið hefur hins vegar full­yrt að engir hags­munaá­rekstrar séu til staðar.

Tengsl við Binance

Heimildir Wall Street Journal herma að full­trúar Trump-fjöl­skyldunnar hafi átt í viðræðum um að fjár­festa í bandarískri starf­semi Binance, einnar stærstu raf­mynta­skiptastöðvar heims.

Fyrir­tækið hefur áður játað brot á bandarískum reglum um peningaþvætti og greitt háar sektir. Stofnandi þess, Chang­peng Zhao (CZ), af­plánaði fjögurra mánaða fangelsis­dóm árið 2023.

Zhao hefur nú óskað eftir að fá upp­reista æru frá for­setanum og stjórn­endur Binance hafa fundað með full­trúum fjár­málaráðu­neytisins um mögu­legar til­slakanir á eftir­liti.

Ef af fjár­festingu Trump-fjöl­skyldunnar verður, myndi for­setinn tengjast beint fyrir­tæki sem sætt hefur al­var­legri gagn­rýni vestan­hafs af hálfu eftir­lit­saðila og opin­berra stofnana.

World Liber­ty Financial og alþjóð­legur stöðug­leika­gjald­miðill

Í septem­ber síðastliðnum stofnaði Trump-fjöl­skyldan fyrir­tækið World Liber­ty Financial, sem sér­hæfir sig í þróun og út­gáfu raf­mynta. Synir for­setans, Donald Jr., Eric og Bar­ron, eru allir virkir þátt­tak­endur og fjöl­skyldan á um 60% hlut í félaginu.

Fyrir­tækið hefur gefið út stöðug­leika­gjald­miðil (stablecoin) sem bundinn er við gengi bandaríkja­dals. Upp­haf­leg sala gjald­miðilsins gekk treg­lega, en fékk byr undir báða vængi þegar fjár­festing upp á 2 milljarða dala frá sjóði í eigu Sam­einuðu arabísku fursta­dæmanna fór fram í gegnum Binance með notkun stablecoin-myntarinnar.

Á sama tíma kom raf­mynta­fjár­festir, Justin Sun, sem á rætur að rekja til Kína, að verk­efninu með 75 milljón dala fjár­festingu.

Verðbréfa­eftir­lit Bandaríkjanna, SEC, stöðvaði í kjölfarið dóms­mál gegn Sun og fyrir­tækjum hans vegna meintra brota, en tals­maður hans hefur full­yrt að fjár­festingin hafi ekki verið tengd stjórn­málum með neinum hætti.

Raf­myntanám og markaðs­skráning

Bræðurnir Donald Jr. og Eric hafa einnig fjár­fest í fyrir­tækinu American Bitcoin, sem sér­hæfir sig í raf­mynta­greiðslu (bitcoin mining), þar sem sér­hæfðar tölvu­kerfis­lausnir eru notaðar til að leysa dul­ritunar­verk­efni og afla nýrra eininga af bitcoin. Fyrir­tækið vinnur nú að skráningu á markað með sam­runa við annað raf­mynta­fyrir­tæki.

Á sama tíma vinnur Trump-stjórnin að tveimur stórum frum­vörpum sem varða reglu­verk um raf­myntir:

Frum­varpi um stöðug­leika­gjald­miðla (stablecoins), sem setur fyrsta laga­ramma um út­gáfu og ábyrgð slíks gjald­miðils í Bandaríkjunum.

Frum­varpi um flokkun raf­mynta, þar sem skýrt er hvaða myntir falla undir um­sjón verðbréfa­eftir­litsins (SEC) og hvaða undir vöru­samnings­nefndina (CFTC).

Fyrri frum­varpið hefur mætt and­stöðu sumra þing­manna Demókrata­flokksins, sem vísa til mögu­legra hags­munaá­rekstra vegna tengsla Trump-fjöl­skyldunnar við stöðug­leika gjald­miðla.

Í mars undir­ritaði Trump for­seta­til­skipun um stofnun þjóð­legs raf­mynta­vara­sjóðs, sem er ætlað að þjóna sem sam­svörun við bandaríska gull­forðann. Sjóðurinn skal saman­standa af bitcoin og öðrum raf­myntum sem gerðar hafa verið upp­tækar af yfir­völdum.

Í til­skipuninni kemur einnig fram að fjár­mála- og við­skiptaráðu­neyti Bandaríkjanna megi kaupa frekari birgðir af bitcoin, að því til­skildu að kaup feli ekki í sér fjárútlát úr ríkis­sjóði. Ekki verður keypt í öðrum gjald­miðlum fyrir sjóðinn.