Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur í sinni seinni forsetatíð markað sig sem einn mesti stuðningsmaður rafmyntageirans.
Undanfarin misseri hafa viðskipti forsetans og fjölskyldu hans með rafmyntir og tengdri starfsemi orðið umfangsmikil og margþætt.
Samkvæmt The Wall Street Journalhafa viðskiptin einnig verið vafasöm á köflum vegna mögulegra hagsmunaárekstra og óskýrrar aðgreiningar á milli opinberra embætta og einkaviðskipta.
Á sama tíma hefur markaðsvirðiýmissa rafmynta tekið kipp í skjóli tilkynninga og ummæla forsetans ásamt því að frumkvæði hans í lagasetningu og stefnumörkun hefur verið túlkað sem jákvætt skref fyrir geirann.
$TRUMP-eigendur boðaðir í Hvíta húsið
Trump mun á föstudaginn halda einkakvöldverð fyrir 220 stærstu eigendur rafmyntarinnar $TRUMP, svonefndrar „memecoin“ – myntar sem dregur gildi sitt að verulegu leyti af netvinsældum og samfélagsmiðlaumræðu.
Myntin náði tímabundnu markaðsvirði upp á 15 milljarða dala, en hefur síðan lækkað verulega í verði.
Eftir að kvöldverðurinn var kynntur tók verðið þó að hækka á ný. Fjölmargir stórir eigendur myntarinnar eru erlendir, sem hefur vakið áhyggjur um möguleg áhrif viðskipta á stefnumótun stjórnvalda.
Eftirlitsaðilar hafa einnig bent á að forsetinn gæti verið að hagnast beint á embættisstöðu sinni en forsetaembættið hefur hins vegar fullyrt að engir hagsmunaárekstrar séu til staðar.
Tengsl við Binance
Heimildir Wall Street Journal herma að fulltrúar Trump-fjölskyldunnar hafi átt í viðræðum um að fjárfesta í bandarískri starfsemi Binance, einnar stærstu rafmyntaskiptastöðvar heims.
Fyrirtækið hefur áður játað brot á bandarískum reglum um peningaþvætti og greitt háar sektir. Stofnandi þess, Changpeng Zhao (CZ), afplánaði fjögurra mánaða fangelsisdóm árið 2023.
Zhao hefur nú óskað eftir að fá uppreista æru frá forsetanum og stjórnendur Binance hafa fundað með fulltrúum fjármálaráðuneytisins um mögulegar tilslakanir á eftirliti.
Ef af fjárfestingu Trump-fjölskyldunnar verður, myndi forsetinn tengjast beint fyrirtæki sem sætt hefur alvarlegri gagnrýni vestanhafs af hálfu eftirlitsaðila og opinberra stofnana.
World Liberty Financial og alþjóðlegur stöðugleikagjaldmiðill
Í september síðastliðnum stofnaði Trump-fjölskyldan fyrirtækið World Liberty Financial, sem sérhæfir sig í þróun og útgáfu rafmynta. Synir forsetans, Donald Jr., Eric og Barron, eru allir virkir þátttakendur og fjölskyldan á um 60% hlut í félaginu.
Fyrirtækið hefur gefið út stöðugleikagjaldmiðil (stablecoin) sem bundinn er við gengi bandaríkjadals. Upphafleg sala gjaldmiðilsins gekk treglega, en fékk byr undir báða vængi þegar fjárfesting upp á 2 milljarða dala frá sjóði í eigu Sameinuðu arabísku furstadæmanna fór fram í gegnum Binance með notkun stablecoin-myntarinnar.
Á sama tíma kom rafmyntafjárfestir, Justin Sun, sem á rætur að rekja til Kína, að verkefninu með 75 milljón dala fjárfestingu.
Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna, SEC, stöðvaði í kjölfarið dómsmál gegn Sun og fyrirtækjum hans vegna meintra brota, en talsmaður hans hefur fullyrt að fjárfestingin hafi ekki verið tengd stjórnmálum með neinum hætti.
Rafmyntanám og markaðsskráning
Bræðurnir Donald Jr. og Eric hafa einnig fjárfest í fyrirtækinu American Bitcoin, sem sérhæfir sig í rafmyntagreiðslu (bitcoin mining), þar sem sérhæfðar tölvukerfislausnir eru notaðar til að leysa dulritunarverkefni og afla nýrra eininga af bitcoin. Fyrirtækið vinnur nú að skráningu á markað með samruna við annað rafmyntafyrirtæki.
Á sama tíma vinnur Trump-stjórnin að tveimur stórum frumvörpum sem varða regluverk um rafmyntir:
Frumvarpi um stöðugleikagjaldmiðla (stablecoins), sem setur fyrsta lagaramma um útgáfu og ábyrgð slíks gjaldmiðils í Bandaríkjunum.
Frumvarpi um flokkun rafmynta, þar sem skýrt er hvaða myntir falla undir umsjón verðbréfaeftirlitsins (SEC) og hvaða undir vörusamningsnefndina (CFTC).
Fyrri frumvarpið hefur mætt andstöðu sumra þingmanna Demókrataflokksins, sem vísa til mögulegra hagsmunaárekstra vegna tengsla Trump-fjölskyldunnar við stöðugleika gjaldmiðla.
Í mars undirritaði Trump forsetatilskipun um stofnun þjóðlegs rafmyntavarasjóðs, sem er ætlað að þjóna sem samsvörun við bandaríska gullforðann. Sjóðurinn skal samanstanda af bitcoin og öðrum rafmyntum sem gerðar hafa verið upptækar af yfirvöldum.
Í tilskipuninni kemur einnig fram að fjármála- og viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna megi kaupa frekari birgðir af bitcoin, að því tilskildu að kaup feli ekki í sér fjárútlát úr ríkissjóði. Ekki verður keypt í öðrum gjaldmiðlum fyrir sjóðinn.