Hugbúnaðarfyrirtækið Taktikal hefur sett í loftið skýjalausn fyrir rafrænar þinglýsingar.
Þetta er í fyrsta skipti hérlendis sem boðið er upp á þinglýsingar sem staðlaða lausn í skýinu fyrir lögaðila sem þinglýsa skjölum rafrænt.
Um er að ræða SaaS skýjalausn sem gerir stofnunum og fyrirtækjum kleift að aflýsa og þinglýsa rafrænt á þjónustuvef í skýinu.
„Með lausn Taktikal geta fyrirtæki og stofnanir sett upp rafræn ferli fyrir þinglýsingar og gengið frá þinglýsingu skjala á nokkrum mínútum, án heimsóknar á afgreiðslustaði sýslumanna,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Taktikal:
„Almenningur og fyrirtæki gera sífellt meiri kröfu um að geta afgreitt sín mál rafrænt. Rafrænar þinglýsingar hafa hingað til aðeins verið á færi stærstu fyrirtækja eins og banka að innleiða. Ástæðan er flókin hugbúnaðarinnleiðing sem krefst mikillar sérþekkingar og uppsetning í innri kerfum er mjög kostnaðarsöm. Með því að sjálfvirknivæða ferla við rafrænar þinglýsingar hefur okkur tekist að halda kostnaði niðri hjá fyrirtækjum og stofnunum sem hyggja á notkun slíkra lausna og er ljóst að sparnaður af slíkum lausnum verður umtalsverður.”