Foxconn, stór raftækjaframleiðandi sem framleiðir meðal annars iPhone símana fyrir Apple, hefur lagt aukið fé í bandaríska rafpallbílaframleiðandann Lordstown Motors. Vonast Foxconn til að rafpallbílar félagsins verði helsti samkeppnisaðili Cybertruck raftrukksins sem Tesla hyggst hefja framleiðslu á á næsta ári.
Foxconn fjárfestir 170 milljónum dala í Lordstown Motors og eignast fyrir vikið 18% hlut í félaginu. Félagið hyggst nýta fjármunina til að hefja framleiðslu á fyrsta rafpallbílnum sínum, sem hefur fengið heitið the Endurance.
Lordstown hóf nýlega framleiðslu á bílnum í verksmiðju í Ohio, sem áður var í eigu General Motors.