VR hefur ákveðið að slíta sig úr breiðfylkingu stéttafélaga í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA). Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfgreinasambandsins, staðfestir þetta í samtali við mbl.is
Starfsgreinasambandið, Efling og Samiðn munu í sameiningu halda áfram kjaraviðræðunum við SA. Vilhjálmur gerir ráð fyrir að fundað verði stíft alla helgina. Í gær greindi mbl.is frá því að breiðfylkingin hefði náð samkomulagi við SA um forsenduákvæði samningsins.
„Samstaðan er það sem skiptir máli í öllu í því sem fólk tekur sér fyrir hendur hvort sem það er í félagasamtökum, íþróttum eða hverju sem er. Þetta var niðurstaða VR. Samningsumboðið liggur hjá hverju landsambandi og félagi fyrir sig og þannig er lýðræðið,“ sagði Vilhjálmur, spurður af blaðamanni mbl.is um hvort það sé högg fyrir breiðfylkinguna að samstarfið við VR hafi slitnað.