Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, verður oddviti Flokks fólksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu fyrir komandi þingkosngingar.

Hann tekur sæti Tómasar A. Tómassonar, sem er gjarnan kenndur við Búlluna. Tómas segir í yfirlýsingu að Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks Flokksins, hafi tilkynnt sér í gær að hann verði ekki á lista fyrir næstu kosningar. Það hafi komið sér á óvart en segist þó skilja leikreglurnar.

Ragnar Þór segir í samtali við RÚV að hann telji framboðið ekki hafa áhrif á störf hans fyrir VR og að hann hafi ekki íhugað að fara í leyfi.

„Ég býð fram mína krafta og mín málefni og ef það er eftirspurn hjá þjóðinni að þá er ég tilbúinn í verkefnið en þangað til í sjálfu sér er ómögulegt að segja hvort maður nái í gegn eða ekki. Ég mun sinna mínum störfum sem formaður VR fram að því,“ hefur RÚV eftir honum.

Ragnar Þór segist ætla að leggja áherslu á húsnæðismálin og hyggst hann leggja til að tekið verði upp nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd.