VR þarf að eflast svo að félagið geti staðið af sér verkbönn og staðið eitt og sér í kjarabaráttu sinni óháð öðrum verkalýðsfélögum. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR í leiðara málgagns félagsins sem gefið var út í vikunni.

Þá segir Ragnar að VR þurfi að komast út úr núverandi kjarasamningi „með góðu eða illu“ eins og það er orðað.

Leiðarinn virðist vera uppgjör við síðustu kjarasamningalotu sem endaði með langtímasamningum á almennum vinnumarkaði sem gilda fram til ársins 2028. Óháð launahækkunarákvæðum samningsins voru flestir sammála um að fyrirsjáanleiki langtímasamnings gagnaðist í baráttunni við verðbólguna.

En málið virðist horfa öðruvísi við hjá formanni VR. Ragnar segir að hótanir Samtaka atvinnulífsins um að setja verkbann vegna verkfallsaðgerða VR fyrir farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli hafi neytt félagið til að semja með sama hætti og önnur aðildarfélög Alþýðusambandsins gerðu.

Ragnar segir í leiðaranum að slíkt gangi ekki til lengdar og lýsir því hvernig VR búi sig nú undir að geta staðið ein og sér í kjarabaráttu þegar hann nær markmiðinu um að koma félaginu úr núverandi kjarasamningum.

Spyr um fórnarkostnað sjálfstæðis eins manns

Þetta er ekki eina greinin sem Ragnar skrifar í VR-blaðið í þetta sinn. Í grein sem nefnist Baráttan um Ísland og sjálfstæði þjóðar fjallar hann um það sem hann kallar hörmungar af mannavöldum. Þar spyr hann meðal annars hvers virði sjálfstæði Seðlabankans sé á móti sjálfstæði þjóðarinnar og hver fórnarkostnaður þjóðarinnar verði við að „verja sjálfstæði eins manns og einnar stofnunar?“

Í greininni segir hann stjórnvöld og Seðlabankann starfa eftir úreltum hagfræðikenningum sem „eru í besta falli söguleg áminning um misheppnaða og skaðlega innleiðingu nýfrjálshyggjunnar.“ Væntanlega er Ragnar þarna að vísa til að Seðlabankinn starfar eftir verðbólgumarkmiði líkt og flestir aðrir seðlabankar í þróuðum hagkerfum.

Stjórnvöld fá einnig sneið frá formanninum. Hann segir í grein sinni:

„Þau eru búin að gefa auðhringum firðina okkar og útgerðarelítan malar gull á sameign þjóðarinnar. Forgangsverkefnin eru að selja Íslandsbanka og skera niður innviði og grunnþjónustu eftir forskrift Seðlabankans. Og svo reyna þau að sannfæra okkur um að það sé orkuskortur svo einkaaðilar fái að virkja.“

Veldis- og vaxtasproti Ásgeirs konungs

Ragnar segir að sem betur fer sé til mikið af færu og hámenntuðu fólki sem þori að ögra þessum viðteknu hugmyndum sem hann lýsir hér fyrir ofan en að sú barátta sé ójöfn:

„…það fólk má sín lítils í baráttunni við ægivald fjölmiðla og fjárhagslegan styrk sérhagsmunaafla sem stjórna umræðunni, stjórnmálanum og eru með sinn ókrýnda konung í hásæti Seðlabankans, veifandi verðbólgu- og vaxtasprota yfir alþýðu landsins. Í nafni stöðugleika!“

© Skjáskot (Skjáskot)

Allir í sudoku

Í frétt um útgáfu VR-blaðsins á heimasíðu félagsins kemur fram að þetta sé annað tölublað ársins og auk fastra þátta á borð við leiðara formanns og viðtal við trúnaðarmann sé nú að finna sudoku-þrautir í blaðinu.