Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hyggst bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku í kosningum VR sem fara fram í mars næstkomandi.
„Þrátt fyrir neikvæða umræðu um verkalýðshreyfinguna stendur VR ákaflega vel. Starf stjórnar og skrifstofu VR hefur verið framúrskarandi gott og einkennst af mikilli samheldni og virðingu,“ skrifar Ragnar Þór í færslu á Facebook.
Hann segir að félagsmenn VR hafi á síðasta ári orðið í fyrsta sinn fleiri en 40 þúsund talsins sem geri félagið að „lang stærsta“ stéttarfélagi landsins.
Hreyfingin þverklofin eftir innbyrðis átök
Ragnar Þór bauð sig fram til forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ) en dró framboð sitt til baka á meðan þing sambandsins stóð yfir í október síðastliðnum. Hann segir að mikil orka hafi farið í innbyrðis átök á vettvangi ASÍ „og er hreyfingin þverklofin hvað það varðar“.
„Ég trúi því að hreyfingunni beri gæfa til að vinna sig í gegnum þessa stöðu á komandi framhaldsþingi ASÍ og mun ég leggja mitt af mörkum svo það megi verða.“
Hann segir stóru málin hjá verkalýðshreyfingunni vera sem fyrr húsnæðismálin. Þar beri helst að nefna aukna leiguvernd og aðgerðir vegna stöðu þeirra sem eru með „stökkbreytt húsnæðislán“ ásamt því að halda áfram uppbyggingu óhagnaðardrifnu leigufélaganna Bjargs og Blævar.
„Ég mun halda áfram að berjast gegn spillingu í íslensku samfélagi en fyrst og fremst einbeita mér að því frábæra starfi sem stjórn og starfsfólk VR hefur unnið á vettvangi réttlætis og kjarabaráttunnar.“