Fjártæknifyrirtækið Standby Deposits, sem tveir Íslendingar stofnuðu og leiða, býður leigjendum í Bandaríkjunum bankaábyrgð sem kemur í stað öryggistryggingar en ólíkt Íslandi og Evrópu hefur þessi þjónusta ekki staðið almenningi þar til boða á hagstæðu verði. Fjallað er um sprotafyrirtækið í Viðskiptablaði vikunnar.

Fjártæknifyrirtækið Standby Deposits, sem tveir Íslendingar stofnuðu og leiða, býður leigjendum í Bandaríkjunum bankaábyrgð sem kemur í stað öryggistryggingar en ólíkt Íslandi og Evrópu hefur þessi þjónusta ekki staðið almenningi þar til boða á hagstæðu verði. Fjallað er um sprotafyrirtækið í Viðskiptablaði vikunnar.

Hugmyndin að Standby Deposits kviknaði hjá Agli Almari Ágústssyni, framkvæmdastjóra og einum stofnenda félagsins, eftir upplifun hans við að taka íbúðir á leigu í Bandaríkjunum, fyrst þegar hann stundaði meistaranám í Boston fyrir rúmum áratug og eins þegar hann flutti til Chigago til að starfa fyrir Northern Trust bankasamstæðuna.

„Þá þurfti maður að leggja fram stóra öryggistryggingu. Það fór svolítið í taugarnar á mér vitandi að heima á Íslandi getur maður einfaldlega sótt um húsaleiguábyrgð hjá bankanum sínum og það er ekkert mál. Mér fannst það mjög gamaldags að leggja inn pening fyrir öryggistryggingu hjá einhverju leigufélagi sem ég þekkti ekki en þurfti einfaldlega að treysta.“

Það var þó ekki fyrr en árið 2020 að hann ákveður að fara af stað með verkefnið. Egill vann á þessum tíma fyrir Boston Consulting Group sem greinandi og ráðgjafi, m.a. á sviði flugiðnaðar.

„Það hafði setið lengi í mér sú spurning hvort hægt væri að finna flotta lausn á þessu. Svo Í Covid-faraldrinum þá gat ég ekki haldið í mér lengur og varð að láta reyna á þetta.“

Afdrifarík flugferð til Las Vegas

Mikil orka fór í að finna hentugan banka fyrir Standby sem var tilbúinn að hefja samstarf sem endanlegur ábyrgðaraðili og sýndu nokkrir bankar lausninni áhuga.

Í þessu langa og flókna ferli reyndist gagnlegt ákvæði í CBLR-reglugerðinni fyrir svæðisbanka (e. community banks) sem þurfa m.a. að uppfylla það skilyrði að vera með eignir undir 10 milljörðum dollara.

„Í flugvélinni á leið til Las Vegas þá sat Egill að lesa bankareglugerðir eins og maður gerir,“ segir Elvar Örn Þormar, sem stofnaði Standby með Agli, um ferð þeirra félaga á ráðstefnuna Money20/20.

„Þá rak hann augun í reglu sem segir að umræddir bankar mega taka á sig óefnislegar skuldbindingar upp á allt að 25% prósent af eignum sínum án þess að það telji upp á móti eigin fé. Það þýðir að banki sem er með eignir undir 10 milljörðum dollara getur veitt vöruna okkar án þess að þurfa að fjármagna hana eða að það dragi úr annarri útlánagetu bankans.“

Standby endaði á að velja banka í New York sem er með eignir upp á 9,8 milljarða dollara sem getur þá veitt félaginu yfir 2 milljarða dollara í útlánagetu út frá CBLR-reglunni. Þessi regla var innleidd fyrir fáeinum árum til að einfalda regluverk fyrir minni banka.

Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun þar sem Egill og Elvar rekja þriggja ára sögu Standby Deposits, háleit markamið og tækifæri á bandaríska markaðnum.