Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Rammi hagnaðist um 13,2 milljónir evra eftir skatta á síðasta ári eða sem samsvarar 1,8 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 2 milljónir evra, eða sem nemur 279 milljónum króna, á árinu 2022 vegna síðasta rekstrarárs, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Rekstrartekjur Ramma námu 66,9 milljónum evra, eða um 9,3 milljörðum króna, sem er 16,7% aukning frá árinu 2020 þegar tekjur samstæðurnar voru um 57,3 milljónir evra. Í skýrslu stjórnar segir að vaxandi eftirspurn hafi verið eftir flestum afurðum samstæðunnar þegar leið á árið.

Heildareignir samstæðunnar námu 162,9 milljónum evra, eða um 22,7 milljörðum króna, í árslok 2021. Eigið fé Ramma var 103,9 milljónir evra, eða um 14,5 milljarðar króna miðað við núverandi gengi, og eiginfjárhlutfallið því 63,8% í lok síðasta árs, samanborið við 56,7% ári áður.

Rammi er útgerðar - og fiskvinnslufyrirtæki sem gerir út fjögur fiskiskip frá Ólafsfirði, Siglufirði og Þorlákshöfn. Félagið starfrækir einnig fisk - og humarvinnslu í Þorlákshöfn og rækjuvinnslu á Siglufirði.

Ólafur Helgi Marteinsson er framkvæmdastjóri Ramma. Stærsti hluthafi samstæðunnar í lok síðasta árs var félagið Marteinn Haraldsson ehf. með 38,9% hlut.