Í síðustu viku var Rannsóknasetur um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands stofnað við athöfn sem fór fram í hátíðarsal skólans, á 95 ára afmælisdegi Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.
Jafnframt var ritað undir samstarfssamning við Arion banka til þriggja ára, en bankinn er helsti bakhjarl setursins.
Tilgangur rannsóknasetursins er að efla og dýpka þekkingu á stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi, með það að markmiði að stuðla að raunverulegu jafnrétti í efnahagslegri þátttöku, ákvarðanatöku og leiðtogastöðum, bæði innanlands og með hagnýtingu og kynningu rannsókna á alþjóðavettvangi.
Setrið samanstendur af alþjóðlegu og þverfræðilegu teymi úr Háskóla Íslands og úr háskólum bæði austan hafs og vestan, þar með talið Stanford, Columbia og CBS, til að nefna nokkra.
Stjórn setursins skipa þau Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands, Viðar Lúðvíksson á Landslögum og Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og stjórnarformaður setursins. Að auki á stór hópur fræðimanna við Háskóla Íslands og erlendra háskóla aðild að setrinu.
„Það eru fáir sem átta sig á því að Ísland er í 44. sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins þegar kemur að stjórnunarstöðum kvenna í samfélaginu. Því er það hlutverk rannsóknarsetursins að leita leiða til þess að loka því bili með því að vinna að rannsóknum, hér á landi og erlendis, þróa hagnýtar lausnir sem byggja á traustum gögnum og miðla þekkingu sem nýst getur til stefnumótunar og kerfisbreytinga,“ segir Ásta Dís Óladóttir, stofnandi setursins.