Samstæða Rapyd Europe hf. hagnaðist um 3.070 milljónir króna eftir skatta árið 2024 samanborið við 830 milljóna hagnað árið áður.

Rekstrartekjur fjártæknifélagsins jukust um 40,7% milli ára, eða um 10,5 milljarða, og námu 36 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) meira en tvöfaldaðist milli ára og nam 4,3 milljörðum króna.

Viðskiptalíkan Rapyd felst í að veita fjármála- og fjártæknifyrirtækjum innviðaþjónustu, sem þau síðan byggja sínar sérhæfðu lausnir ofan á. Í skýrslu stjórnar í ársreikningi Rapyd segir að 2024 haf verið metár hjá fjártæknifélaginu og er þar vísað í aukinn EBITDA-hagnað samhliða tekjuvexti félagsins.

Ársverk í fyrra voru 201 samanborið við 229 árið áður sem félagið rekur til samlegðar sem náðist fram í rekstrinum. Laun og tengd gjöld námu 4,2 milljörðum í fyrra samanborið við 4,8 milljarða árið 2023.

Eignir Rapyd Europe voru bókfærðar á 52,2 milljarða króna í árslok 2024, samanborið við 57,5 milljarða árið áður. Eigið fé var um 11,7 milljarðar og eiginfjárhlutfall í árslok 22,4%.

Lykiltölur / Rapyd Europe hf.

2024 2023
Rekstrartekjur 36.126 25.670
EBITDA 4.328 1.928
Afkoma 3.070 830
Eignir 52.169 57.457
Eigið fé 11.677 9.935
Ársverk 201 229
- í milljónum króna

Rapyd keypti Korta árið 2020 og Valitor af Arion banka á 14,6 milljarða króna árið 2022. Rapyd Europe og Valitor sameinuðust formlega í ársbyrjun 2023.

Í lok ágúst síðastliðnum gerðu Rapyd Europe og Síminn Pay samkomulag um að síðarnefnda félagið myndi taka yfir kortalán og greiðsludreifingar VISA og MasterCard korthafa sem sett voru á laggirnar og starfrækt af hálfu Valitor. Í lok febrúar tók Síminn Pay við kortalánum um níu þúsund einstaklinga fyrir 1.500 milljónir króna.