Fjártæknifyrirtækið Rapyd Europe hf. tapaði 487 milljónum króna árið 2022 samanborið við 327 milljóna tap árið 2021.

Tekjur Rapyd á Íslandi jukust um 26% á milli ára og námu 3,7 milljörðum. Hreinar þjónustutekjur, þ.e. þjónustutekjur að frádregnum þjónustugjöldum, jukust lítillega og námu 810 milljónum en rekstrargjöld voru um 1,6 milljarðar. Rekstrartap (EBIT) var 765 milljónir samanborið við 534 milljónir árið áður.

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins segir að reksturinn sé í takt við áætlanir og gangi vel. Rapyd á Íslandi hafi á síðasta ári lagt áherslu á að styrkja innviði félagsins og samræma við alþjóðlegu starfsemi móðurfélagsins. Þá hafi sókn Rapyd Europe hf. á erlenda markaði haldið áfram og erlend velta aukist „umtalsvert“.

Rapyd gekk frá kaupum á Valitor frá Arion banka á 14,6 milljarða króna í fyrra. Rapyd Europe hf. og Valitor sameinuðust þó ekki formlega fyrr en 1. janúar 2023. Viðskiptablaðið fjallaði um afkomu Valitor fyrr í mánuðinum.

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaði sem kom út í morgun. Lengri útgáfu af greininni má finna hér.

Lykiltölur / Rapyd - í milljónum króna

2022 2021
Tekjur 3.741 2.970
Eignir 6.166 5.512
Eigið fé 1.351 1.431
Afkoma -487 -327