Fjártæknifyrirtækið Rapyd Europe hf. tapaði 327 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 285 milljóna tap árið 2020. Þetta kemur fram í skýrslu Seðlabankans um heildarniðurstöður ársreikninga ársins 2021 hjá fjármálafyrirtækjum. Ársverk Rapyd á Íslandi voru 50 á síðasta ári og fjölgaði um sjö á milli ára.
Eignir Rapyd Europe, sem keypti greiðslumiðunarfyrirtækið Korta árið 2020, námu 5,5 milljörðum króna í lok síðasta árs og jukust um tæplega 200 milljónir á milli ára. Eigið fé jókst úr 1.220 milljónum í 1.430 milljónir á milli ára. Eiginfjárhlutfall fjártæknifyrirtækisins var því um 26% um síðustu áramót.
Sjá einnig: Rapyd vill verða AWS fjártækninnar
Rapyd Europe náði samkomulagi um kaup á Valitor af Arion banka fyrir rúmu ári síðan. Kaupverðið er komið upp í tæplega 110 milljónir dala, eða um 14,6 milljarða króna, eftir að kaupsamningnum var framlengt í lok apríl. Samkeppniseftirlitið heimilaði kaupin með skilyrðum fyrir þremur vikum en félögin bíða enn eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins.
Viðskiptablaðið sagði nýlega frá því að samkeppnisaðilinn SaltPay á Íslandi, sem hét áður Borgun, tapaði tæplega 1,4 milljörðum króna í fyrra.