Rarik ohf. hagnaðist um rúmlega 2,2 milljarða króna árið 2024, samanborið við 1,5 milljarða árið áður. Stjórn ríkisfyrirtækisins leggur til 310 milljóna arðgreiðslu til ríkissjóðs.
„Helstu breytingar á milli ára eru meiri rekstrarhagnaður, einkum hjá Orkusölunni, dótturfélagi Rarik, en auk þess voru nettó fjármagnsgjöld lægri en árið á undan. Heildarhagnaður að teknu tilliti til áhrifa af endurmati fastafjármuna nam 7.205 milljónum króna,“ segir í uppgjörstilkynningu Rarik.
Tekjur félagsins jukust um 15,8% milli ára og námu 24 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 12,8% frá fyrra ári og nam tæplega 7,6 milljörðum króna.
Heildareignir í árslok 2024 námu 10,3,3 milljörðum króna. Eigið fé var 64,9 milljarðar króna og er eiginfjárhlutfall því 62,9%.
Standa frammi fyrir stórum fjárfestingum
Fjárfestingar ársins að frádregnu söluandvirði seldra rekstrarfjármuna jukust um 655 milljónir milli ára og námu 8,4 milljörðum króna.
Félagið segir að fjárfestingaþörf þess sé að aukast vegna breyttrar neysluhegðunar og orkuskipta. Bent er á að stjórn Rarik hafi síðasta haust samþykkt fimm ára fjárfestingaáætlun sem nemur rúmlega 40 milljörðum, til að styðja við markmið um orkuskipti. Gert er ráð fyrir að fjárfestingar þessa árs verði 8,4 milljarðar króna.
„Horfur ársins 2025 eru góðar en krefjandi. Rarik er og vill vera leiðandi afl í orkuskiptum Íslands. Orkuskiptin og undirbúningur fyrir framtíðina eru framþung verkefni og mun Rarik standa frammi fyrir stórum fjárfestingum sem þarf að fjármagna bæði úr eigin rekstri og með aukinni skuldsetningu.“