Enski auðkýfingurinn Jim Ritclaffe hefur staðfest að hann hafi áhuga á að kaupa enska knattspyrnufélagið Manchester United. Fyrirtækið hans Ineos, sem starfar á sviði efnavinnslu, hefur tjáð Glazer fjölskyldunni, aðaleiganda United, um áhugann.
„Við höfum formlega sett okkur inn í ferlið,“ hefur SkyNews eftir talsmanni Ineos.
Í nóvember var greint frá því að Glazer-fjölskyldan væri með til skoðunar að selja knattspyrnufélagið að hluta eða í heild sinni.
Ratcliffe, sem er auðugasti maður Bretlands, hefur verið stuðningsmaður Manchester United frá æsku og hefur ekki farið leynt með áhuga á sinn á að eignast félagið. Auðæfi Ratcliffe eru metin á 15,5 milljarða dala, eða um 2,2 þúsund milljarða króna, samkvæmt rauntímalista Forbes.
Áhugi hefur einnig borist frá Miðausturlöndunum, þar á meðal Sádi Arabíu, í Manchester United.
Á einnig lið í Frakklandi og Sviss
Ratcliffe er ekki ókunnugur rekstri knattspyrnufélaga en hann hefur átt franska úrvalsdeildarliðið Nice frá árinu 2019. Hann á einnig svissneska knattspyrnuliðið FC Lausanne-Sport.
Ratcliffe var meðal fjárfesta sem buðu í Chelsea þegar þáverandi eigandinn, Rússinn Roman Abramovich, neyddist til að selja Lundúnafélagið. Hið 4,25 milljarða punda tilboði Ratcliffe var hafnað.