Ineos, fyrirtæki breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe, hefur tryggt sér 3,5 milljarða evra fjármögnun eða yfir 500 milljarða króna fyrir nýja verksmiðju fyrir jarðolíuefni í Antwerp í Belgíu. Ineos segir að um sé að ræða stærstu fjárfestingu í evrópskri efnavinnslu í langan tíma. The Times greinir frá.
Ýmsir samkeppnisaðilar Ineos, þar á meðal þýska fyrirtækið BASF, hafa tilkynnt um að þeir hyggist minnka varanlega starfsemi sína í Evrópu vegna hækkandi orkukostnaðar í álfunni.
Ineos telur að nýja framleiðslustöðin verði engu að síður hagkvæm þar sem hún sé ein sú sparneytnasta í heimi. Þá verði kolefnislosun verksmiðjunnar aðeins um þriðjungur af meðallosun hjá sambærilegum stöðvum í Evrópu. Verksmiðjan mun umbreyta ódýru etani, aukaafurð af gasframleiðslu, í etýlen.
Hin 3,5 milljarða evra fjármögnun verkefnisins, sem gengur undir nafninu „Project One“, kemur frá 21 viðskiptabönkum í Evrópu. Áætlað er að starfsemi hefjist árið 2026.