Six Rivers, félag breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe, hefur gert landeigendum við Svalbarðsá í Þistilfirði tilboð sem felur í sér leigu á laxveiðiréttindum í ánni til tíu ára hið minnsta. Fiskifréttir greina frá.

Rætt var um tilboð á fundi Jarðasjóðs Langanesbyggðar í gær og vísað var í niðurstöðu Veiðifélags Svalbarðsár. Jónas Pétur Bóasson, formaður félagsins, segir í samtali við Fiskifréttir að niðurstaðan liggi ekki fyrir en að málið verði tekið fyrir á fundi á næstu vikum eða mánuðum.

Jim Ratcliffe, sem er aðaleigandi Ineos og eignaðist 27,7% hlut í knattspyrnufélaginu Manchester United í byrjun árs, hefur verið umsvifamikill í leigu og kaupum á laxveiðiám á Norðausturhorni landsins í gegnum Six Rivers. Í Þistilfirði tók Ratcliffe á árinu 2022 Hafralónsá á leigu til tíu ára.

Jim Ratcliffe á þegar einn fulltrúa í stjórn Veiðifélags Svalbarðsár með eignarhaldi sínum á jörðinni Svalbarðsseli.

Fyrirtækið Hreggnasi og forverar þess hafa að sögn Jónasar haft Svalbarðsá á leigu frá árinu 2005. Nýjasti samningurinn, sem var til fimm ára, rennur út eftir sumarið 2025.

Gildir tilboð Six Rivers því í tíu ár frá og með 2026. Í því felst meðal annars bygging á nýju veiðihúsi. Félagið hafi einnig hugmyndir að hlúa að Svalbarðsánni sjálfri að sögn Jónasar þótt enn hafi ekki verið rætt um byggingu laxastiga ofan við fossinn við efsta veiðistað árinnar.

Jónas segir Hreggnasa þegar hafa sýnt áhuga á framlengingu leigunnar. Hann búist við að rætt verði við fyrirtækið um það mál í ljósi tilboðs Six Rivers.

„Veiðifélagið á eftir að taka afstöðu til þess hvort það verði farið út í að auglýsa ána eða ræða við þessa tvo aðila.“

Langanesbyggð á jarðirnar Flautafell og Kúðá sem séu annars vegar vestan við og hins vegar austan við Svalbarðsá á ofanverðu veiðisvæðinu. Með þessum jörðum á sveitarfélagið 47 prósent af veiðiréttinum.

Jónas segist ekki hafa orðið var við að Ratcliffe hafi verið að falast eftir kaupum á fleiri jörðum við Svalbarðsá. Það geti hins vegar vel verið að Six Rivers hafi verið að þreifa á sveitarfélaginu.