Dómari í Bandaríkjunum hefur samþykkt sölu á veitingakeðjunni Red Lobster til hóps lánveitenda sem stefna að því að endurvekja landsþekkta sjávarréttastaðinn.

Samkvæmt WSJ samþykkti móðurfélag Red Lobster í gær að selja keðjuna til sjóðs sem er undir leiðsögn Fortress Investment Group, TCW Private Credit og Blue Torch Capital.

Gert er ráð fyrir að salan verði kláruð í lok mánaðar og mun þá fyrrverandi forstjóri veitingastaðarins P.F. Chang, Damola Adamolekun, taka við sem nýr framkvæmdastjóri.

„Með nýju stuðningsaðilunum okkar erum við komin með alhliða og langtíma fjárfestingaráætlun, þar með talið skuldbindingar sem nema meira en 60 milljónum dala í nýrri fjármögnun. Þetta mun hjálpa við að endurlífga vörumerki okkar,“ segir Adamolekun.

Að sögn sérfræðinga byrjuðu vandamál keðjunnar síðasta sumar þegar Red Lobster ákvað að koma til móts við viðskiptavini sína, sem voru margir hverjir að glíma við verðbólgu. Red Lobster fór að bjóða aftur upp á tilboð þar sem viðskiptavinir gátu borðað eins mikið af rækjum og þeir vildu fyrir aðeins 20 dali.

Tilboðið virtist vera of freistandi fyrir of marga og þrátt fyrir að hafa hækkað tilboðið í 25 dali þá tapaði veitingakeðjan miklum fjárhæðum.