Úrvalsvísitalan féll um tvo prósent í 2,3 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Tuttugu af 23 félögum markaðarins voru rauð í viðskiptum dagsins.
Eimskip, Hagar og Marel leiddu lækkanir en hlutabréfaverð félaganna þriggja lækkuðu um 3,6% í dag. Gengi Haga stendur nú í 67 krónum á hlut hefur ekki verið lægra síðan í september.
Hlutabréf bankanna þriggja í Kauphöllinni lækkuðu um 1,0-1,5% í viðskiptum dagsins. Mesta veltan á aðalmarkaðnum var með hlutabréf Íslandsbanka sem lækkuðu um 1% í 314 milljóna viðskiptum. Gengi Íslandsbanka stendur nú í 118 krónum.
Hampiðjan nær nýjum hæðum
Hampiðjan, sem er skráð á First North-markaðnum, var eina félagið í Kauphöllinni sem hækkaði í dag. Gengi félagsins hækkaði um 2,2% í 14 milljóna veltu og stendur nú í 138 krónum á hlut. Gengi Hampiðjunnar hefur aldrei verið hærra en félagið hefur hækkað um 17% í ár.