Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,6% í 2,7 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, en vísitalan hefur lækkað um rúm 28% frá áramótum. Þá lækkaði gengi 17 af 22 félögum á markaði.
Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 1,3% í 470 milljóna veltu. Næst mesta veltan var með bréf Marel sem lækkuðu mest allra félaga á markaði, um 3% í 460 milljóna veltu. Gengi Marel stendur nú í 447 krónum.
Gengi þriggja félaga hækkaði í dag, Icelandair um 0,4%, Síminn um 0,9% og Sýn um 0,8% í óverulegum viðskiptum.
Á First-North hækkaði Play um eitt prósent í fjögurra milljóna veltu og stendur gengið í 15,5 krónum. Gengi bréfa félagins hefur aldrei verið lægra frá skráningu en í gær og í dag.
Hlutabréf lækkuðu nokkuð í gær á Wall Street og eins í framvirkum viðskiptum í morgun.
Evrópsk hlutabréf hafa þá lækkað síðustu fimm daga, eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag.