Úrvalsvísitalan féll um 0,4% í 2,6 milljarða króna veltu á íslenska aðalmarkaðnum í dag. Fimmtán af 22 félögum markaðarins lækkuðu í viðskiptum dagsins. Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem lækkuðu um 1,2% í 585 milljóna viðskiptum. Gengi Marels stóð í 506 krónum við lokun markaða og er um 41,5% lægra en í byrjun ársins.
Gengi fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins Sýnar lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 3% í 82 milljóna veltu. Hlutabréfaverð Sýnar stóð í 62 krónum við lokun Kauphallarinnar og hefur ekki verið lægra frá því í lok júlí en gengið fór upp í 70 krónur um miðjan síðasta mánuð.
Tvö félög hækkuðu í viðskiptum dagsins. Gengi Icelandair hækkaði um hálft prósent í 48 milljóna viðskiptum og stendur nú í 1,88 krónum. Þá hækkaði hlutabréfaverð Íslandsbanka um 0,3% í 258 milljóna veltu og stendur nú í 129,8 krónum.