Úrvalsvísitalan féll um 0,34% í viðskiptum dagsins þar sem flugfélögin lækkuðu mest allra annan daginn í röð.
Á aðalmarkaði lækkaði Icelandair um 1,73% niður í 1,7 krónur á hlut. Play, sem er á First North markaðnum, lækkaði um 3,7% niður í 26,3 krónur á hlut þó viðskipti með bréf Play hafi ekki numið nema 16 milljónum króna. Play kynnti sitt fyrsta heila ársfjórðungsuppgjör frá því það hóf áætlunarflug í gær. Afkoma félagsins var undir væntingum stjórnenda, sem báru fyrir sig áhrif heimsfaraldursins.
í gær var gefið út að sóttvarnarráðstafanir yrðu óbreyttar á landamærunum til 15. janúar og í dag voru hertar aðgerðir innanlands vegna metfjölda smita í gær.
Bréf þriggja félaga hækkuðu í dag, en tólf lækkuðu og fimm stóðu í stað. Alls nam velta með hlutabréf 1,5 milljörðum króna í 361 viðskiptum.
Reginn hækkaði um 1,9%, Hagar um 1,6% og Brim um 1,3%, en lækkun dagsins hjá öðrum félögum en Icelandair var frá 0,3% og upp í 1,4%.