Gengi krónu hefur verið nokkuð stöðugt það sem af er ári en sam­kvæmt greiningar­deild Ís­lands­banka hafa horfur um vöxt út­flutnings á árinu dökknað þó að út­lit sé fyrir jafn­vægi á utan­ríkis­við­skiptum.

Að mati bankans eru horfur á hóf­legri styrkingu krónu næstu misserin en hátt raun­gengi mun síðan auka líkur á veikingu krónu.

Gengi krónu hefur verið nokkuð stöðugt það sem af er ári en sam­kvæmt greiningar­deild Ís­lands­banka hafa horfur um vöxt út­flutnings á árinu dökknað þó að út­lit sé fyrir jafn­vægi á utan­ríkis­við­skiptum.

Að mati bankans eru horfur á hóf­legri styrkingu krónu næstu misserin en hátt raun­gengi mun síðan auka líkur á veikingu krónu.

„Trú­lega má skýra gengis­þróunina innan ársins bæði með flæði vegna utan­ríkis­við­skipta, flæði tengdu fjár­magns­hreyfingum og breytingum á stöðu­töku með krónu. Það sem af er árinu 2024 hefur gengi krónu verið til­tölu­lega stöðugt. Til að mynda hefur evran haldist innan bilsins 148-151 á móti krónu frá ára­mótum fram í júní­byrjun,” segir í greiningu Ís­lands­banka sem Jón Bjarki Bents­son aðal­hag­fræðingur bankans skrifar.

Ný­legar bráða­birgða­tölur Hag­stofu Ís­lands um vöru­skipta­jöfnuð í maí hljóða upp á mun minni vöru­skipta­halla en var í apríl en hallinn nam tæpum 21 milljarði í maí saman­borið við ríf­lega 47 milljarða í apríl.

„Á móti gjald­eyris­inn­flæði af ofan­greindum á­stæðum vega til dæmis á­fram­haldandi er­lendar fjár­festingar líf­eyris­sjóðanna sem námu 83 ma.kr. á síðasta ári. Aðrir inn­lendir aðilar gætu einnig aukið við fjár­festingar er­lendis þegar fram í sækir, sér í lagi ef krónan styrkist tíma­bundið meira en við væntum.”

Hraðari hækkun launa og meiri verð­bólgu hér­lendis

Jón Bjarki segir að meðal helstu ó­vissu­þátta um gengis­þróunina sé hvernig úr spilist í þróun ferða­þjónustu á komandi misserum.

Ef út­flutnings­tekjur í greininni standa í stað eða dragast saman í ár frá þeim tæpu 600 milljörðum sem hún aflaði í fyrra, minnka líkur á styrkingu á komandi fjórðungum og líkur á ein­hverri veikingu á komandi vetri verða meiri.

„Gangi spár okkar um þróun gengis krónu, launa og verð­lags hér á landi eftir mun slík gengis­styrking á­samt hraðari hækkun launa og meiri verð­bólgu hér­lendis en gengur og gerist í við­skipta­löndum okkar ýta raun­gengi krónu ná­lægt fyrri há­gildum sínum undir lok spá­tímans, þ.e. á árinu 2026,“ segir Jón Bjarki.

„Fara því líkur á frekari styrkingu krónu þverrandi eftir því sem tíminn líður. Að sama skapi aukast líkur á gengis­veikingu krónu síðar meir ef ekki verður breyting á slíkri þróun launa og verð­bólgu. Væri það í sam­ræmi við þróun síðustu ára­tuga þar sem raun­gengið hefur á­vallt á endanum leitað í jafn­vægi með lækkun á nafn­genginu,“ segir Jón Bjarki.