Vísitala raungengis íslensku krónunnar, á mælikvarða verðlags, þ.e. þegar gengi krónunnar hefur verið leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum, hefur hækkað verulega á undanförnum misserum og nálgast nú svipuð gildi og í uppgangi ferðaþjónustunnar á árunum fyrir heimsfaraldur.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabanka Íslands hækkaði vísitala raungengis um 1,05% milli febrúar og mars og nam 96,3 stigum í mars. Þetta er hæsta gildið frá ágúst 2018.
Meðaltal vísitölunnar frá árinu 1980 er 86,25 stig, og 84,16 stig frá aldamótum. Síðan í árslok 2023 hefur vísitalan hækkað um 5,94% og um 8,94% síðustu tvö ár. Sé horft til raungengis frá 1980 hefur það aðeins fjórum sinnum verið hærra en nú – á tímabilunum 2017-18, 2005-07, 1987-89 og 1980-81.
Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur segir þróun raungengis að undanförnu fyrst og fremst endurspegla sterka stöðu íslensks efnahagslífs.
„Það er held ég ekki hægt að draga neina aðra ályktun en að það sem sé að drífa áfram hátt raungengi sé sterk staða í hagkerfinu. Við erum ekki með teljandi vaxtamunaviðskipti og kvikt fjármagn sem keyrir áfram raungengið. Það hefur verið ágætis útflutningsvöxtur, að vísu ekki í fyrra, efnahagsreikningur þjóðarbúsins gagnvart útlöndum er mjög sterkur og það hefur verið töluvert fjárfestingainnflæði til landsins.“
Hið háa raungengi sé í raun merki um góðan árangur hagkerfisins að undanförnu.
„Fyrst og fremst er hátt raungengi því einhvers konar afleiðing af velgengni síðustu missera, sem er í grundvallaratriðum það sem er að færa raungengið upp á við. Það sem er líka merkilegt í þessu er að þessi raungengishækkun hefur nær alfarið verið keyrð áfram af því að verðlag hækkar hraðar hér en í helstu viðskiptalöndum okkar, og launahækkanir sömuleiðis verið meiri,“ bætir Konráð við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.