Gengi krónu hefur sótt talsvert í sig veðrið gagnvart flestum helstu gjaldmiðlum frá byrjun septembermánaðar og er krónan nú nálægt sínum sterkustu gildum á þessu ári ef miðað er við gengisvísitölu
Styrkingin hefur átt sér stað þrátt fyrir halla á vöru- og þjónustuviðskiptum á lokafjórðungi ársins ensamkvæmt greiningardeild Íslandsbanka á innstreymi fjármagns til verðbréfafjárfestinga, breyttar væntingar og hóflegt fjárfestingaútflæði á líklega mestan þátt í styrkingunni.
„Gagnvart stærstu mótmyntinni á gjaldeyrismarkaði, evrunni, nemur styrkingin tæplega 5% og sama gildir um fylgitungl hennar, dönsku krónuna. Gagnvart breska pundinu hefur krónan styrkst um nærri 3% og um ríflega 6% gagnvart jeninu japanska. Undantekningin er Bandaríkjadollar en hann hefur verið í styrkingarfasa þetta haustið líkt og krónan. Gengi krónu gagnvart dollaranum er því nokkurn veginn það sama og í lok sumars þótt nokkrar sveiflur hafi orðið í millitíðinni,“ skrifar Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Þrátt fyrir nokkrar sveiflur milli mánaða hefur gengi krónu að meðaltali verið nánast það sama þetta árið og í fyrra sé miðað við viðskipti vegna gengisvísitölu Seðlabankans.
Ársmeðaltal vísitölunnar var þannig 195,2 á síðasta ári en 195,3 þetta árið nú þegar tæpar þrjár vikur eru til áramóta.
„Öðru máli gegnir þó um raungengi krónunnar, sem endurspeglar hversu dýrt eða samkeppnishæft Ísland er á heimsvísu þegar tekið hefur verið tillit til verðlags eða launakostnaðar. Raungengið hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin misseri. Í nóvember var raungengið á mælikvarða hlutfallslegs verðlags þannig orðið hærra en það hefur verið frá haustinu 2018. Svipaða sögu má lesa úr þróun raungengis sé horft til hlutfallslegs launakostnaðar þótt hækkunin hafi ekki verið jafn skörp síðustu fjórðungana og á fyrrnefnda mælikvarðann,“ segir Jón Bjarki.
Samkvæmt bankanum skýrist þetta bæði af hóflegri hækkun launakostnaðar hér á landi en oft áður og eins því að launakostnaður í viðskiptalöndum okkar hefur hækkað öllu hraðar upp á síðkastið en verið hafði um alllanga hríð.
Samkvæmt greiningardeildinni hefur haustið verið hagfelldara hvað utanríkisviðskipti varðar en ýmsir óttuðust.
Nýlega birtar tölur Ferðamálastofu um brottfarir um Keflavíkurflugvöll benda til þess að nóvember hafi verið fimmti mánuðurinn í röð þar sem erlendum ferðamönnum hér á landi fjölgaði milli ára eftir allsnarpa fækkun á öðrum fjórðungi þessa árs.
„Allar líkur eru á því að vöruskiptahalli á lokafjórðungi ársins verði umtalsvert meiri en sem nemur afgangi af þjónustuviðskiptum og heildarhalli á vöru- og þjónustuviðskiptum þetta árið verði því í grennd við þau 0,4% af VLF (u.þ.b. 20 ma.kr.) sem við áætluðum í þjóðhagsspá okkar í septemberlok.“
Jón Bjarki tekur þó fram að fleiri vindar blása um gjaldeyrismarkað en eingöngu þeir sem tengjast utanríkisviðskiptum.
Þegar þokkalegt jafnvægi er milli útflutnings og úrflutnings eins og í stórum dráttum virðist vera raunin um þessar mundir verða aðrir áhrifaþættir oft ráðandi um skemmri tíma sveiflur í gengi krónunnar.
„Þar má til að mynda nefna gjaldeyrisflæði tengt breytingum á eigna- og skuldastöðu þjóðarbúsins. Lífeyrissjóðirnir íslensku ráðstafa til að mynda hluta af hreinu innflæði vegna iðgjalda og fjármagnstekna til fjárfestinga erlendis, að stærstum hluta í verðbréfasjóðum og hlutabréfum. Á fyrstu átta mánuðum ársins námu hrein gjaldeyriskaup íslenskra lífeyrissjóða 51 ma.kr. samkvæmt gögnum Seðlabankans. Þótt dregið hafi úr gjaldeyriskaupum þeirra um 17 ma.kr. frá sama tímabili í fyrra var staðan engu að síður sú um síðasta ár að flestir lífeyrissjóðir voru þá komnir nærri markmiði sínu um hlutfall gjaldeyriseigna af heildareignum þetta árið samkvæmt Seðlabankanum.