Gengi krónu hefur sótt tals­vert í sig veðrið gagn­vart flestum helstu gjald­miðlum frá byrjun septem­ber­mánaðar og er krónan nú nálægt sínum sterkustu gildum á þessu ári ef miðað er við gengis­vísitölu

Styrkingin hefur átt sér stað þrátt fyrir halla á vöru- og þjónustu­við­skiptum á loka­fjórðungi ársins ensam­kvæmt greiningar­deild Ís­lands­banka á inn­streymi fjár­magns til verðbréfa­fjár­festinga, breyttar væntingar og hóf­legt fjár­festingaút­flæði á lík­lega mestan þátt í styrkingunni.

„Gagn­vart stærstu mót­myntinni á gjald­eyris­markaði, evrunni, nemur styrkingin tæp­lega 5% og sama gildir um fylgi­tungl hennar, dönsku krónuna. Gagn­vart breska pundinu hefur krónan styrkst um nærri 3% og um ríf­lega 6% gagn­vart jeninu japanska. Undan­tekningin er Bandaríkja­dollar en hann hefur verið í styrkingarfasa þetta haustið líkt og krónan. Gengi krónu gagn­vart dollaranum er því nokkurn veginn það sama og í lok sumars þótt nokkrar sveiflur hafi orðið í milli­tíðinni,“ skrifar Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka.

Þrátt fyrir nokkrar sveiflur milli mánaða hefur gengi krónu að meðaltali verið nánast það sama þetta árið og í fyrra sé miðað við við­skipti vegna gengis­vísitölu Seðla­bankans.

Árs­meðal­tal vísitölunnar var þannig 195,2 á síðasta ári en 195,3 þetta árið nú þegar tæpar þrjár vikur eru til áramóta.

„Öðru máli gegnir þó um raun­gengi krónunnar, sem endur­speglar hversu dýrt eða sam­keppnis­hæft Ís­land er á heims­vísu þegar tekið hefur verið til­lit til verðlags eða launa­kostnaðar. Raun­gengið hefur hækkað jafnt og þétt undan­farin misseri. Í nóvember var raun­gengið á mæli­kvarða hlut­falls­legs verðlags þannig orðið hærra en það hefur verið frá haustinu 2018. Svipaða sögu má lesa úr þróun raun­gengis sé horft til hlut­falls­legs launa­kostnaðar þótt hækkunin hafi ekki verið jafn skörp síðustu fjórðungana og á fyrr­nefnda mæli­kvarðann,“ segir Jón Bjarki.

Sam­kvæmt bankanum skýrist þetta bæði af hóf­legri hækkun launa­kostnaðar hér á landi en oft áður og eins því að launa­kostnaður í við­skiptalöndum okkar hefur hækkað öllu hraðar upp á síðkastið en verið hafði um all­langa hríð.

Sam­kvæmt greiningar­deildinni hefur haustið verið hag­felldara hvað utan­ríkis­við­skipti varðar en ýmsir óttuðust.

Ný­lega birtar tölur Ferðamála­stofu um brott­farir um Kefla­víkur­flug­völl benda til þess að nóvember hafi verið fimmti mánuðurinn í röð þar sem er­lendum ferðamönnum hér á landi fjölgaði milli ára eftir allsnarpa fækkun á öðrum fjórðungi þessa árs.

„Allar líkur eru á því að vöru­skipta­halli á loka­fjórðungi ársins verði um­tals­vert meiri en sem nemur af­gangi af þjónustu­við­skiptum og heildar­halli á vöru- og þjónustu­við­skiptum þetta árið verði því í grennd við þau 0,4% af VLF (u.þ.b. 20 ma.kr.) sem við áætluðum í þjóðhags­spá okkar í septem­ber­lok.“

Jón Bjarki tekur þó fram að fleiri vindar blása um gjald­eyris­markað en ein­göngu þeir sem tengjast utan­ríkis­við­skiptum.

Þegar þokka­legt jafn­vægi er milli út­flutnings og úr­flutnings eins og í stórum dráttum virðist vera raunin um þessar mundir verða aðrir áhrifaþættir oft ráðandi um skemmri tíma sveiflur í gengi krónunnar.

„Þar má til að mynda nefna gjald­eyris­flæði tengt breytingum á eigna- og skuldastöðu þjóðar­búsins. Líf­eyris­sjóðirnir ís­lensku ráð­stafa til að mynda hluta af hreinu inn­flæði vegna ið­gjalda og fjár­magns­tekna til fjár­festinga er­lendis, að stærstum hluta í verðbréfa­sjóðum og hluta­bréfum. Á fyrstu átta mánuðum ársins námu hrein gjald­eyris­kaup ís­lenskra líf­eyris­sjóða 51 ma.kr. sam­kvæmt gögnum Seðla­bankans. Þótt dregið hafi úr gjald­eyris­kaupum þeirra um 17 ma.kr. frá sama tíma­bili í fyrra var staðan engu að síður sú um síðasta ár að flestir líf­eyris­sjóðir voru þá komnir nærri mark­miði sínu um hlut­fall gjald­eyris­eigna af heildar­eignum þetta árið sam­kvæmt Seðla­bankanum.