Verð á forgangsorku Landsvirkjunar í heildsölu hefur lækkað að raunvirði um 7% frá því að ný raforkulög voru sett og samkeppni hófst á þeim markaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Þá segir að verðið á raforku frá Landsvirkjun hafi hins vegar hækkað milli áranna 2023 og 2024 um 11% að nafnvirði, 5% að raunvirði.
„Sölufyrirtækin, sem selja orkuna áfram til almennings, hafa öll tryggt sér orku langt fram í tímann, t.d. nær alla orku sem þau þurfa út 2025, svo tímabundin hækkun í krefjandi árferði ætti ekki að hafa mikil áhrif á heildarverð til lengri tíma,“ segir í tilkynningu.
Landsvirkjun hélt upplýsingafund um raforkuverð í dag, undir yfirskriftinni Hvað er að frétta af raforkuverði?
Á fundinum kom fram að á undanförnum áratug hefur íbúum landsins fjölgað um 50 þúsund, en á sama tíma hefur ekki verið hafist handa við byggingu stórrar aflstöðvar. Landsvirkjun hefur bent á þetta misræmi árum saman og að spurn eftir orku myndi óhjákvæmilega fara fram úr framboði ef ekkert yrði að gert.
„Á undanförnu ári hækkaði kostnaður við flutning og dreifingu raforku, sem og opinber gjöld. Hjá meðalheimili þýddi þetta samtals 6 þúsund kr. meiri raforkukostnað á ári. Rafmagnið sjálft hækkaði svo um 2 þúsund kr. til viðbótar. Það er því rétt að líta til fleiri þátta en raforkuverðsins þegar rafmagnsreikningur heimilanna er skoðaður.“