Munurinn á ávöxtunarkröfu verðtryggðra íslenskra ríkisskuldabréfa og svokallaðra TIPS bréfa, sem eru verðtryggð bandarísk ríkisskuldabréf, er lítill sem enginn um þessar mundir og er sú staða óvenjuleg í sögulegu samhengi.

Sé horft aftur til ársins 2012 hefur munurinn sveiflast umtalsvert en var að meðaltali tæpir 170 punktar og fór um tíma yfir 300 punkta. Í mörg ár var bilið á milli 200 og 250 punkta að jafnaði en undir árslok 2018 fór munurinn að minnka umtalsvert á ný og var á bilinu 40 til 80 punktar fram í fyrstu mánuði kórónuveirufaraldursins á fyrri hluta árs 2020. Þá tók munurinn að aukast á ný og nam að jafnaði 120 til 150 punktum fram undir lok síðasta árs.

Ávöxtunarkrafa bandarísku TIPS bréfana var neikvæð nánast samfleytt frá ársbyrjun 2020 og fram í mars á þessu ári, en síðan þá hefur hún aukist til muna samhliða vaxtahækkunum og væntingum um frekari hækkanir í Bandaríkjunum. Að sama skapi hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðra íslenskra ríkisskuldabréfa verið mun stöðugri og fór svo að þann 14. júní síðastliðinn var krafa bandarísku bréfanna hærri, eða 0,89% miðað við 0,86% hjá þeim íslensku. Síðan þá hafa bandarísku bréfin gefið eilítið eftir og er munurinn nú 22 punktar, sem er samt sem áður ansi lítið í sögulegu samhengi.

Fréttinn er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.