Frá aldamótum hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um það bil áttfaldast. Á sama tíma hafa laun tæplega sexfaldast og almennt verðlag án húsnæðis tæplega þrefaldast. Þetta kemur fram í greiningu Landsbankans.

Þar segir að raunverð á íbúðum, miðað við vísitölu íbúðaverðs án húsnæðis, hafi um það bil þrefaldast frá aldamótum.

„Af þessu má ráða að almennt hafi orðið sífellt erfiðara að komast inn á íbúðamarkað, enda er fjárfestingin stærri en áður í samanburði við laun. En ýmislegt fleira spilar inn í, til dæmis framboð af íbúðalánum, vextir, lánþegaskilyrði, leiguverð og tilfærslur,“ segir í greiningu.

Frá því viðskiptabankarnir komu inn á íbúðalánamarkað í september 2004 hafa íbúðalánavextir sveiflast þó nokkuð. Vaxtastigið var sögulega lágt þegar heimsfaraldur skall á og fóru verðtryggðir vextir íbúðalána á einum tíma niður í 1,4%.

Óverðtryggðir vextir voru lægstir þegar þeir náðu 3,3% en náðu svo hámarki árið 2022 þegar þeir fóru í 10,7%. Verðtryggðir vextir hafa hins vegar enn ekki farið hærra en um mitt ár 2008 þegar þeir fóru upp í 6,3%.

„Til þess að skoða hvernig staðan hefur breyst frá 2004 er miðað er við nýja lántöku í hverjum mánuði og lánsupphæðin hækkar með tímanum í takt við íbúðaverð. Meðallaun voru um 250 þúsund krónur árið 2004 og yfir tímabilið eru launin látin fylgja vísitölu launa. Á þessu tímabili hafa laun hækkað um 320% að nafnvirði á meðan mánaðarleg greiðsla á verðtryggðu láni hefur hækkað um 440%.“