Í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka sem birt var í morgun er spáð töluverðri hækkun á íbúðaverði næstu þrjú árin. Greining Íslandsbanka spáir því að íbúðaverð hækki um 5,8% á þessu ári, 5,1% árið 2025 og 6,1% árið 2026.

„Þrír meginþættir koma til með að stuðla að áframhaldandi hækkun að okkar mati: endanleg áhrif uppkaupa ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík, fólksfjölgun og breytt samsetning fasteignalána,“ segir í ‏þjóðhagsspánni.

Eftir tímabundið lágmark hafi umsvif á fasteignamarkaði aukist um mitt síðasta ár, m.a. vegna rýmri skilyrða hlutdeildarlána. Hækkunartaktur fasteignaverðs hafi orðið enn hraðari vegna spurnar íbúa Grindavíkur eftir fasteignum á suðvesturhorninu. Greining bankans gerir þó ráð fyrir að „Grindavíkuráhrif“ fjari út á næstu mánuðum.

„Þá mætti segja að lánþegar hafi tekið verðtrygginguna í sátt á ný, a.m.k. tímabundið, sem skýrir mögulega hluta innkomu nýrra kaupenda á markaðinn,“ segir í þjóðhagsspánni .

Mynd tekin úr þjóðhagsspá Íslandsbanka.

Hvað framboð nýrra íbúða varðar þá er bent er á að íbúðum í byggingu hafi fækkað sem rekja megi til þess að háir vextir séu farnir að „bíta nokkuð fast“ auk þess sem framleiðslukostnaður á hverja íbúð hefur hækkað.

„Verktakar vilja tæma úr framleiðslupípunum áður en þeir hefja ný verkefni og þess vegna ætti uppbygging nýrra íbúða að taka við sér þar sem góður taktur hefur verið í sölu nýrra íbúða á þessu ári. Þar af leiðandi spáum við ekki viðlíka hækkun og þegar hæst lét en við gerum samt sem áður ráð fyrir raunverðshækkun á spátímanum.“

Stýrivextir verði 5,5% í lok spátímans

Greining Íslandsbanka spáir því að verðbólga, sem mældist 6,0% í apríl, verði tregbreytanleg næstu mánuði og verði 5,0% í lok þessa árs. Þjóðhagsspáin gerir ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 3,6% árið 2025 og 3,1% árið 2026.

„Stöðugt verðlag erlendis, hæg styrking krónu og hófsamir kjarasamningar stuðla einna helst að hjöðnun. Verðbólgan fer ekki í markmið samkvæmt okkar spá en verður ansi nálægt því árið 2026.“

Íslandsbanki telur að frekari hjöðnun verðbólgunnar og lækkun verðbólguvæntinga ætti að öðru óbreyttu að gefa Seðlabankanum svigrúm til lækkunar stýrivexti á seinni helmingi ársins.

Í þjóðhagsspánni er spáð því að peningastefnunefnd lækki stýrivexti um hálfa prósentu á seinni árshelmingi og að þeir verði komnir í 8,75% í lok þessa árs. Þá er spáð því að stýrivextir verði 6,25% í lok árs 2025 og í 5,5% undir lok spátímans „en það teljum við vera nærri jafnvægisvöxtum um þessar mundir“.

Í þjóðhagsspánni er spáð litlum hagvexti í ár eða um 0,9% en að hann aukist á ný á komandi árum og verði um 2,3% árið 2025 og 2,6% árið 2026.