Red Bull, sem Ölgerðin hefur verið dreifingaraðili fyrir á Íslandi, verður ekki hluti vörumerkja fyrirtækisins, samkvæmt árshlutauppgjöri fyrirtækisins.
Þar segir að samningi við Red Bull hefur verið sagt upp með sex mánaða fyrirvara.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að annar dreifingaraðili muni taka við vörumerkinu.
„Við verðum bara að vísa á Red Bull með það,“ segir Andri en velgengi Collab hefur verið horn í síðu Red Bull.
„Við erum líka í öðrum orkudrykkjum þannig þeir vilja leita á önnur mið þar sem þeir fá meiri fókus,“ segir Andri.
Sérstakt dótturfélag fyrir útrás Collab
Í uppgjöri Ölgerðarinnar er áætlað að neikvæð áhrif á rekstrarhagnað fyrir afskriftir á næsta fjárhagsári séu 80 milljónir króna vegna þessa.
Ölgerðin stefnir hins vegar að því að sækja fram með Collab heldur undirbúningur að útflutningi áfram.
„Tilraunasala hófst í Noregi og þar sem drykkurinn hefur verið kynntur hafa viðtökur verið góðar og erlendir söluaðilar virðast hafa trú á vörunni. Ljóst er hins vegar samkvæmt reynslu að það tekur tíma og þolinmæði að koma nýrri vöru á markað og því er horft til langtímasjónarmiða á þessum vettvangi,” segir í uppgjöri félagsins.
Ölgerðin hefur stofnað sérstakt dótturfélag, Collab ehf., um útflutning vörunnar, en það félag kaupir vöruna fullunna af Ölgerðinni til endursölu á erlendum mörkuðum.
„Á næsta fjárhagsári er reiknað með því að fjárfesting í markaðssetningu á nýjum mörkuðum erlendis verði ekki undir 200 milljónum króna, en sá kostnaður verður endurmetinn eftir því hvernig tekst til í markaðssetningu,“ segir í uppgjörinu.