Reddit-fjárfestar, sem leiddu hækkanir á hlutabréfagengi GameStop fyrr á árinu, hafa undanfarna viku beint athygli sinni að bandarískum og kanadískum kannabisfyrirtækjum, en mest hafa áhrifin verið á hlutabréfagengi kanadísku kannabisfyrirtækjanna Tilray og Sundial Growers.

Sjá einnig: Wallstreetbets keyrir upp bréf Gamestop

Gengi hlutabréfa í Tilray nam 25,72 bandarískum dollurum í lok síðustu viku en hafði hækkað um tæp 150% við lokun markaða vestanhafs á miðvikudag, í 63,91 dal.

Sömu sögu er að segja af gengi hlutabréfa í Sundial Growers. Í lok síðustu viku nam gengi bréfanna 1,13 dollurum en var um 160% hærra við lokun markaða á miðvikudag, eða sem nemur 2,95 dollurum á hlut.

Þrýstingur á gengi bréfinna gaf töluvert eftir í gær. Gengi bréfa Tilray lækkaði heldur meira en við lokun markaða í gær stóðu bréf Tilray í 32,16 dollurum á hlut og bréf Sundial í 2,38 dollurum.

Skortsala bréfa í kannabisfyrirtækjum hefur aukist umtalsvert það sem af er mánuði og er hluti Reddit-fjárfestanna sagður sækjast eftir skjótfengnum gróða með því að þrengja að skortsölum með því að þrýsta verði bréfanna upp og losa sig við þau áður en bólan springur.

Aðrir eru sagðir líta til lengri tíma fjárfestingar þar sem þeir telja verðmæti bréfanna geta aukist umtalsvert, rætist úr því að löggjöf um kannabis verði rýmkuð undir forystu Joe Bidens Bandaríkjaforseta. Hlutabréfagengi kannabisfyrirtækja tók enda að hækka í haust samhliða því sem líkur á kjöri Bidens til forseta jukust.

Sjá einnig: Græn bylting í kjölfar blárrar

Uppfært 12:20: Fyrir mistök var sagt að hækkunin hefði átt sér stað í gær, en hið rétta er að hækkunin náði hámarki í fyrradag og hefur það verið leiðrétt, auk þess sem upplýsingum um gengisþróun gærdagsins hefur verið bætt við. Lesendur eru beðnir afsökunar á mistökunum.