Umbótaflokkur Nigel Farage [e. Reform UK], fyrrum þingmanns Breska sjálfstæðisflokksins [e. UKIP] og stofnanda Brexit-flokksins, er orðinn stærsti stjórnmálaflokkur Bretlands.
Þetta má lesa úr meðaltali skoðanakannanna sem framkvæmdar hafa verið frá þingkosningunum í júlí sl. Telegraph greinir frá.
Næstu þingkosningar í Bretlandi verða haldnar í ágúst 2029, eftir meira en fjögur ár, að því gefnu að Breski verkamannaflokkurinn haldi út allt kjörtímabilið.
Fylgi flokksins hefur hrunið frá kosningunum í júlí sl., þar sem flokkurinn hlaut 32,1% fylgi á landsvísu. Fylgið stendur nú í 25,1% samanborið við 26,2% hjá Umbótaflokknum, sem hefur nærri tvöfaldað fylgi sitt frá kosningum.
Breski íhaldsflokkurinn siglir lygnan sjó, mælist með 21,3% fylgi. Þá mælast Frjálslyndir demókratar [e. Lib Dems] að meðaltali með 13,1% fylgi og Græningjar [e. Green] með 8,3%.
Þrír flokkar á toppnum
Þegar litið er til fjölda þingsæta mælist Íhaldsflokkurinn með flest sæti samkvæmt könnunum, 178 talsins. Þar á eftir kemur Umbótaflokkurinn með 175 sæti og Verkamannaflokkurinn með 174.
Verkamannaflokkurinn hlaut 404 þingsæti í kjölfar kosninganna á síðasta ári og er því með hreinan meirihluta á breska þinginu.
Samkvæmt könnunum YouGov hefur Umbótaflokkur Farage aukið fylgi sitt verulega meðal kvenna, úr 12% dagana eftir kosningar í 23%.
Þá er hann vinsælasti flokkurinn meðal karla, en 28% þeirra hyggjast kjósa flokkinn ef kosið yrði á morgun.
Farage vinsæll meðal eldra fólks
Umbótaflokkurinn er vinsælasti flokkurinn meðal eldra og miðaldra fólks.
Hjá aldurshópnum 18-24 ára eru Græningjar með fjórðungsfylgi en Íhaldsmenn með einungis 6% fylgi.