Reginn hf. hefur ákveðið gera breytingar á valfrjálsu yfirtökutilboði sínu í allt hlutafé Eikar fasteignafélags eftir að stjórn Eikar lagðist gegn því að hluthafar samþykki yfirtökutilboð Regins í félagið í gærkvöldi.
Hluthafafundur Eikar fer fram á föstudaginn en samkvæmt tilkynningu Regins til Kauphallarinnar í morgun hækkar tilboðsverðið fyrir hvern hlut í Eik, kvaða- og veðbandalausan, úr 0,452 hlutum í tilboðsgjafa í 0,489 hluti í tilboðsgjafa.
Taki allir hluthafar Eikar hinu breytta tilboði munu þeir fá í endurgjald að hámarki 1.670.351.049 hluti eða 48,0% útgefins hlutafjár í Reginn í kjölfar viðskipta miðað við útgefið hlutafé Regins í gær.
Í greinargerð stjórnar Eikar til hluthafa kom fram að stjórnin taldi hlutfall hluthafa Eikar í Reginn ósanngjarnt.
Telja 50,6% sanngjarnt hlutfall
Stjórn Regins tilkynnti þann 8. júní síðastliðinn að hún hefði ákveðið að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar. Samkvæmt upphaflega tilboðinu myndu hluthafar Eikar fá 46% útgefins hlutafjár í Regin.
Gengi Eikar var þann dag 10,4 krónur en gengi tilboðsgjafa var 23 krónur. Gengi Eikar hefur hækkað um 13,5% síðan þá á meðan gengi Regins hefur lækkað um 5,2% miðað við dagslokagengi gærdagsins.
Hlutfall hluthafa Eikar í sameinuðu félagi væri því 47,9% en ekki 46%.
Í greinargerð stjórnar Eikar frá því gærkvöldi segir að Arctica Finance hafi veitt félaginu ráðgjöf í ferlinu en að þeirra mati væri sanngjarnt hlutfall hluthafa Eikar 50,6% á móti 49,4% hlutfalli hluthafa Regins. Miðast matið við 6,2% fjármagnskostnað hjá báðum félögum.
Í greinargerðinni segir einnig að allir stjórnarmenn Eikar sem einnig eigi hlut í félaginu hyggist hafna tilboði Regins.
Starfsfólk Eikar hefur einnig skilað inn áliti sínu á yfirtökutilboðinu til stjórnarformanns og forstjóra en í því segir að almennt telji starfsmenn að yfirtökutilboðið hafi slæm áhrif á störf starfsfólks félagsins.