Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun sinni vegna kvörtunar Hvals hf. um frestun upphafs hvalveiða síðastliðið sumar og látið í ljós álit sitt vegna málsins.
Í álitinu kemur m. a. fram að reglugerð Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um um frestun upphafs hvalveiða hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiða.
Þá segir umboðsmaður einnig að eins og atvikum var háttað hafi útgáfa og undirbúningur reglugerðarinnar ekki samrýmst kröfum um meðalhóf.
Verkefni dómstóla að rétta hlut Hvals
Umboðsmaður beinir ekki sérstökum tilmælum til ráðuneytisins um úrbætur. Hann beinir því hins vegar til ráðuneytisins að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar.
„Þar sem það ástand sem leiddi af útgáfu reglugerðarinnar er liðið undir lok tel ég ekki ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til ráðherra um úrbætur þar að lútandi. Þá tek ég fram að með niðurstöðu minni hef ég enga afstöðu tekið til hugsanlegra einkaréttarlegra afleiðinga hinna ólögmætu stjórnvaldsfyrirmæla. Hef ég af þeim sökum ekki heldur forsendur til að beina tilmælum til ráðherra um að leita leiða til að rétta hlut Hvals hf. Yrði það að vera verkefni dómstóla að leysa úr slíkum álitaefnum ef málið yrði lagt í þann farveg. Ég beini því þó til ráðherra að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar.“
Svandís ákvað í byrjun sumar að fresta hvalveiðum til 1. september með tilheyrandi tjóni fyrir Hval hf.
Ákvörðun Svandísar olli mikilli ólgu innan ríkisstjórnarinnar enda var hvalveiðabann hvergi nefnt í stjórnarsáttmála.
Svandís ákvað að stöðva veiðar tímabundið á grundvelli skýrslu fagráðs um velferð dýra en að mati ráðsins voru hvalveiðar ekki í samræmi við lög um velferð dýra.
Samkvæmt lögfræðiáliti LEX lögmannsstofu sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) lét vinna fór ákvörðun ráðherra í bága við lög og ekki reist á nægjanlega traustum lagagrundvelli.
SFS leitaði eftir áliti frá LEX degi eftir ákvörðun Svandísar var kynnt, 20. júní.
„Afar hæpið verður að teljast að ákvæði 4. gr. laga nr. 26/1949 um hvalveiðar færi ráðherra heimild til að setja reglugerð sem stöðvar í reynd veiðar á langreyðum fyrirvaralaust eða kemur beinlínis í veg fyrir að veiðirétthafar geti nýtt réttindi sín. Ákvörðun ráðherra var því ekki reist á viðhlítandi lagaheimild sem stenst kröfur 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 72. gr. Stjórnarskrár,“ segir í niðurstöðu kafla álitsins.