„Hlutverk stjórnvalda er ekki að stíga inn á markaðinn og skikka fyrirtæki til að gera hitt og þetta. Þau eiga að búa til skýrar leikreglur og passa að samkeppnin komist af stað og leysi vandamál sem koma upp á markaðnum,“ segir Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri og annar stofnenda indó, þegar hann er spurður út í regluverk fjármálamarkaðarins.

Indó opnaði formlega dyrnar árið 2023 eftir fimm ára undirbúningsvinnu, en félagið er fyrsti sparisjóðurinn til að fá leyfi sem slíkur í á fjórða áratug hér á landi. Haukur segir ferlið hafa verið krefjandi og telur regluverkið of almennt þar sem sömu viðmið gildi fyrir alla.

„Hlutverk stjórnvalda er ekki að stíga inn á markaðinn og skikka fyrirtæki til að gera hitt og þetta. Þau eiga að búa til skýrar leikreglur og passa að samkeppnin komist af stað og leysi vandamál sem koma upp á markaðnum,“ segir Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri og annar stofnenda indó, þegar hann er spurður út í regluverk fjármálamarkaðarins.

Indó opnaði formlega dyrnar árið 2023 eftir fimm ára undirbúningsvinnu, en félagið er fyrsti sparisjóðurinn til að fá leyfi sem slíkur í á fjórða áratug hér á landi. Haukur segir ferlið hafa verið krefjandi og telur regluverkið of almennt þar sem sömu viðmið gildi fyrir alla.

„Regluverkið er ágætt til síns brúks. En þetta er svolítið 1 eða 0. Þegar við undirbjuggum komu okkar inn á markaðinn þurftum við að uppfylla allar sömu reglur og stóru flóknu aðilarnir. Sumt af þessu er viðeigandi en annað síður. Svo eru þættir í regluverkinu sem miðar að fjármálafyrirtækjum sem hafa verið í rekstri yfir langan tíma. Fyrir fyrirtæki eins og okkar tekur það nokkur ár að skilja hvernig þessar helstu stærðir í módelinu hegða sér.“

Haukur tekur regluverkin í Danmörk, Bretlandi og Ástralíu sem dæmi um fyrirkomulag sem gerir nýjum aðilum auðveldara fyrir að fóta sig á markaðnum.

„Við sjáum að fjármálaeftirlitin í þessum löndum eru í auknum mæli að opna á svokallað sandkassaumhverfi þar sem sprotafyrirtæki geta farið af stað, tekið á móti innlánum upp að ákveðnu marki í ákveðinn tíma, og fengið tíma til að slípa kerfin og ferlin hjá sér. Þ.a.l. fá fyrirtækin svigrúm til að þróa sínar lausnir og prófa sig áfram í takmarkaðan tíma og með takmörkuð umsvif án þess að uppfylla öll lagaskilyrði strax í byrjun.

Með þessum hætti er takmörkuð áhætta af rekstri þessara fyrirtækja á meðan þau eru að koma sér af stað mætt með takmörkuðu eftirliti. Það hefði verið gott fyrir okkur að lúta svipuðu fyrirkomulagi frá 2021-2023. Ég skynja að stjórnmálafólkið vill breyta þessu til hins betra, en það tekur tíma.“

Nánar er rætt við Hauk í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni.