Regus á Íslandi hefur fest kaup á húsnæði á Skagaströnd að Túnbraut 1-3 þar sem stefnt er að opnun vinnustöðva árið 2025. Kaupin eru sögð liður í að þétta net skrifstofusetra Regus hér á landi. Félagið stefnir að frekari fjölgun starfsstöðva sinna og vinnurýma á Íslandi.
Í húsnæðinu á Skagaströnd eru fyrir útibú Landsbankans, afgreiðslustöð Póstsins, Greiðslustofa Vinnumálastofnunar og skrifstofa Léttitækni ásamt skrifstofum Sveitarfélagsins Skagastrandar.
Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri á Skagaströnd, segir sveitarfélagið fagnar ákvörðun Regus. Með vinnurýminu skapist ný tækifæri til þess að hýsa mismunandi störf í sveitarfélaginu bæði í opinbera- og einkageiranum.
Samhliða aukist einnig atvinnutækifæri þeirra sem vilja búa og starfa á Skagaströnd til skemmri eða lengri tíma.
„Sá sveigjanleiki sem lausnir Regus hafa upp á að bjóða eru í takt við byggðaáætlun varðandi störf án staðsetningar þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Til þess að slíkt sé mögulegt þarf að vera til staðar hentugt skrifstofuhúsnæði þar sem önnur starfsemi er fyrir og skapa þessar breytingar því m.a. umgjörð fyrir flutning nýrra starfa og íbúa til Skagastrandar sem er vel,“ er haft eftir Alexöndru.
Tómas Ragnars, forstjóri og einn af eigendum Regus á Íslandi, opnaði fyrstu starfsstöð Regus hér á landi í Reykjavík fyrir rúmum tíu árum síðan. Fyrirtækið leigir nú út tilbúin vinnurými og skrifstofur, til langs eða skemmri tíma, víðs vegar um landið.
Starfsstöðvarnar eru m.a. við Kirkjusand, Hafnartorg, Laugaveg og í Garðabæ, Keflavík, Stykkishólmi, Siglufirði og Ísafirði. Regus á Íslandi er orðið stærsta einkaumboð Regus í Evrópu.
„Fólk vill geta starfað alls staðar, þar og þegar sem þeim hentar best, og okkar verkefni er að gera öllum Íslendingum, hverjum einasta einstaklingi, þetta bæði mögulegt og auðvelt,“ er haft eftir Mark Dixon, stofnanda, forstjóra og stærsta hluthafa IWG, móðurfélags IWG, móðurfélags alþjóðlegu Regus-samstæðunnar.